A A A

Ágrip af sögu skólahalds í Tálknafirði

Ýmislegt er á huldu um framkvæmd barnafræðslu í Tálknafjarðarhreppi fram til ársins 1909 en þá fyrsti fundur fræðsluráðs Tálknafjarðarhrepps haldinn. Ljóst er þó að fyrir þann tíma hefur verið um einhverja farkennslu að ræða. Samkvæmt fræðslusamþykkt hreppsins frá þessum tíma skyldi kennsla fara fram á tveimur stöðum, Bakka og Sveinseyri. Á Sveinseyri var notað til kennslunnar þinghús hreppsins sem stóð þar sem nú er Dunhagi en á Bakka var notuð stofa í íbúðarhúsi sem ekki var notuð til annars meðan kennsla fór fram. Kennsluáhöld skólans á þessum tíma voru: 1) Uppdráttur Íslands, 2) jarðlíkan, 3) uppdráttur af öllum heimsálfunum, 4) myndir af líkama mannsins, 5) myndir af mannkynsflokkunum, 6) myndir af alidýrunum, 7) segulstál, 8) glerstöng, 9) ebonystöng, 10) tvær hyllimergskúlur, 11) þrístrent gler, 12) stækkunargler.

 

Samtals nam kostnaður við skólahaldið árið 1910 kr. 392,36 en þar af var kaup kennara í 23 vikur kr 138,00. Fyrsta skólahús í Tálknafirði var byggt á Bakka sumarið 1910 og kostaði bygging þess kr. 2.557,75. Árið 1911 var samþykkt einu hljóði á almennum hreppsfundi að byggja barnaskólahús á Sveinseyri og skyldi það standa ofan við síkið og upp af þinghúsinu. Kennt var til skiptis á Bakka og Sveinseyri, 10 vikur á hvorum stað. Bakkaskóla sóttu börn af bæjum frá Litla Laugardal og út með firðinum að norðanverðu, en börn af öðrum bæjum sóttu skólann á Sveinseyri. Hélst þetta fyrirkomulag svo til óbreytt til 1950 er nýju fræðslulögin frá 1947 voru farin að segja til sín. Var skólatími þá kominn í 5 mánuði í Sveinseyrarskóla en 3 mánuði í Bakkaskóla. Um svipað leyti virðist komin upp ákveðin óánægja meðal hreppsbúa með framkvæmd fræðsluskyldunnar því 1952 er skorað á hreppsnefnd að koma henni í sem best lag og athuga með möguleika á heimavistarskóla.

 

Árið 1955 var kennslu hætt í Bakkaskóla og farið að ræða um staðsetningu nýs heimavistarskóla og hófst bygging hans í upphafi sjöunda áratugarins í landi Eyrarhúsa, við hlið gamla Sveinseyrarskólans. Kennsla í nýju skólahúsnæði hófst að loknu jólaleyfi í janúar 1968 en þá voru forsendur fyrir heimavistaskóla breyttar, byggðin tekin að þéttast og samgöngur að batna. Var þeim börnum sem enn voru eftir í sveitinni ekið daglega í skólann og lagðist sá skólaakstur af vorið 1981. Sund mun hafa verið kennt af og til frá því fyrir aldamótin 1900 og var sund gert að skyldunámsgrein hér árið 1936. Fyrst var kennt í sundlaug sem hlaðin var úr torfi og var hún oft æði gruggug. Sundlaug sú sem nú er notuð var upphaflega byggð árið 1930 og var hún 10x20 metrar. Var hún m.a. byggð fyrir fjárframlag úr sýslusjóði og fóru sundnámskeið fyrir alla sýsluna fram í henni. Sundlaugin var stórlega endurbætt og lengd í 25 metra árið 1987. Leikfimi var kennd af og til frá 1972 til 1988 í samkomuhúsinu Dunhaga en í febrúar 1989 var byrjað að kenna leikfimi í hinu nýja íþróttahúsi Tálknfirðinga.

 

Haustið 1992 var fékkst undanþága til að hefja kennslu í 10. bekk við skólann og síðan þá hefur 1. til 10. bekkur verið starfræktur við skólann. Tvívegis hefur verið byggt við grunnskólann síðan árið 1968. Fyrri viðbygging sem samanstendur af tveimur kennslustofum og nýju anddyri, alls um 150m2 var tekin í notkun á haustmánuðum 1997, byggt var við vesturhlið skólans.

 

Vorið 2003 var tekin í notkun ný 245 m2 viðbygging. Um er að ræða 3 kennslustofur og rými þar sem sameinuðu bókasafni hreppsins og skólans var komið fyrir. Að þessu sinni var byggt við norðurgafl upprunalega skólahúsnæðisins. Með þessum viðbyggingum var unnt að uppfylla skilyrði um einsetningu skólans sem og að færa alla bóklega kennslu undir eitt þak, auk þess sem Tónlistarskóli Tálknafjarðar hefur nú aðstöðu í húsnæði Grunnskólans.

 

Heimildaskrá

1) Skólaskrifstofa Vestfjarða, Skólar á Vestfjörðum síðast útgefið skólaárið 1999-2000

 

Janúar 2007

 

Ingólfur Kjartansson

Skólastjóri

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        
Næstu atburðir
Vefumsjón