A A A

Skýr krafa um jarðgöng

Fulltrúar samstarfsnefndar í Alþingishúsinu
Fulltrúar samstarfsnefndar í Alþingishúsinu

Fulltrúar samstarfsnefndar um sameiningu Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar heimsóttu þingflokka á Alþingi síðasta miðvikudag. Efni fundanna var að fara yfir mikilvægi jarðganga um Mikladal og Hálfdán. Áttu fulltrúarnir gott samtal við þingmenn sem skilja vel kröfur íbúa um jarðgöng og vonandi munu þingmenn hafa það í huga þegar samgönguáætlun kemur til vinnslu og afgreiðslu á næstu mánuðum.


Kjörnir fulltrúar og íbúar Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar hafa unnið mikla vinnu við undirbúning íbúakosningar um sameiningu sveitarfélaganna en áætlað er að kosningar fari fram í haust. Starfshópar hafa rýnt öll málefni sveitarfélaganna og er það skýr niðurstaða allra framangreindra aðila að forsenda fyrir farsælli sameiningu sveitarfélaganna er jarðgöng um Mikladal og Hálfdán. Umrædd jarðgöng tengja saman byggðakjarnana Patreksfjörð, Tálknafjörð og Bíldudal. Góð tenging á milli byggðakjarna innan væntanlegs sameinaðs sveitarfélags er lykillinn að því að svæðið geti uppfyllt skilyrði þess að vera eitt búsetu-, þjónustu- og atvinnusvæði. Samstarfsnefndin hefur sammælst um staðsetningu jarðganga í samræmi við innviðagreiningu er unnin var fyrir Vesturbyggð 2019 og er því full samstaða um staðsetningu jarðganga á svæðinu. Allir þingmenn fengu einnig afhent minnisblað um mikilvægi jarðgangna um Mikladal og Hálfdán sem nálgast má hér.

Samstarfsnefnd um sameiningu Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar leggur því til við Alþingi að í þingsályktun um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2024-2028 verði gert ráð fyrir að hafin verði vinna við hönnun jarðganga um Mikladal og Hálfdán. Síðan verði gert ráð fyrir framkvæmd við gerð jarðganga um Mikladal og Hálfdán í þingsályktunartillögu um stefnumótandi samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038. Vakin er athygli á því að jarðgöng um Mikladal og Hálfdán styður við og er í samræmi við þingsályktanir Alþingis, stefnu ríkisstjórnarinnar og ályktanir sveitarfélaga á Vestfjörðum. Það er lykilforsenda fyrir farsælli sameiningu Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar að byggt sé upp eitt búsetu-, atvinnu- og þjónustusvæði innan svæðisins og því markmiði verður ekki náð án jarðganga um Mikladal og Hálfdán.

Fulltrúar samstarfsnefndar er mættu á fundina voru Lilja Magnúsdóttir oddviti Tálknafjarðarhrepps, Þórkatla Sif Sigurðardóttir bæjarfulltrúi Vesturbyggðar, Ólafur Þór Ólafsson sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps og Þórdís Sif Sigurðardóttir, bæjarstjóri Vesturbyggðar.

Tekið af: www.vestfirdingar.is

« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    
Næstu atburðir
Vefumsjón