A A A

Þróunarverkefni skólans fékk styrk úr Barnamenningarsjóði

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra ásamt hópnum sem hlaut styrk.
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra ásamt hópnum sem hlaut styrk.

Út­hlutun Barna­menningar­sjóðs Ís­lands fór fram í gær, á degi Barnsins, í Hörpunni og var verkefni Tálknafjarðarskóla eitt af þeim 41 verk­efni sem hlaut styrk úr sjóðnum í ár. Katrín Jakobs­dóttir, for­sætis­ráð­herra og Lilja Al­freðs­dóttir mennta- og menningar­mála­ráð­herra fluttu á­vörp við út­hlutunina en þetta var önnur úthlutun úr þessum sjóði sem var stofnaður í til­efni aldar­af­mælis full­veldisins. Helsta hlut­verk sjóðsins er að styðja við fjöl­breytta starf­semi á sviði barna­menningar með á­herslu á sköpun, listir og virka þátt­töku barna í menningar­lífinu.
 

Styrkirnir í ár nema 92 miljónum króna sem skiptast niður í 41 verk­efni. Alls bárust 112 um­sóknir í ár en lögð var á­hersla á að verk­efnin sem voru valin mættu fjöl­breyttum þörfum barna og ung­menna. Tálknafjarðarskóli í samstarfi við Kómedíuleikhúsið og grunnskóla á sunnanverðum Vestfjörðum fékk úthlutað 2.300.000 fyrir verkefnið “Listasmiðjur með listamönnum úr heimabyggð”. Verkefnið er ætlað að auka flóru listsköpunar meðal skólabarna á sunnanverðum Vestfjörðum. Það felur í sér samstarf milli grunnskólanna og listamanna sem búa á eða eru ættaðir af svæðinu. Listamennirnir koma heim og taka þátt í verkefninu með því að deila þekkingu sinni og list til barnanna í gegnum almennt skólastarf og í reglulegum listasmiðjum. Verkefnið er sniðið að börnum frá tveimur elstu  árgöngum leikskóla til 10. bekkjar grunnskóla. Þá yrði skipt í tvo hópa, leikskóli og 1.-4. bekkur saman og 5.-10. bekkur saman.
 

Markmið verkefnisins

  • Að bjóða nemendum uppá fjölbreytt úrval listgreina.

  • Að opna fyrir fjölbreyttar leiðir fyrir nemendur í listsköpun sinni til að vinna með hugmyndir, varpa fram spurningum, endurspegla og túlka eigin reynslu og annarra.

  • Að nemendur öðlist aukinn skilning og læsi á eigið samfélag og menningu.

  • Að nemendur kynnist listamönnum af svæðinu og átta sig á að unnt er að vinna að list á sínu heimasvæði

Grunnþættir menntunar og Barnasáttmálinn
Bæði Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna og grunnþættir menntunar falla vel að verkefninu. Fram kemur í Barnasáttmálanum að börn eigi að fá tækifæri til að tjá sig og að öll börn séu jöfn en jafnframt ekki eins. Þess vegna er mikilvægt að þau fái aukin tækifæri til að læra að tjá sig meðal annars í því listformi sem hentar þeim og leyfa þeim að velja.
Eitt markmiðanna með verkefninu er að nemendur öðlist aukið læsi á samfélagið sitt og undirliggjandi menningu með því að kynnast listamönnunum af svæðinu. Þannig fá börnin tækifæri til að byggja sig upp andlega og líkamlega með því að tjá sig í því listformi sem hentar þeim best. Þau verða því betur undirbúin að geta dafnað í samfélaginu og fá auk þess tækifæri til að efla samvinnu sína með öðrum. Grunnþættir menntunar snúast einnig um framtíðarsýn, getu og vilja til að hafa áhrif og að taka virkan þátt í að viðhalda samfélagi sínu, breyta því og þróa það.
 

Framkvæmdin
Listasmiðjunum er skipt niður í fimm lotur yfir skólaárið. Fyrstu fjórar smiðjurnar eru vinnusmiðjur og sú fimmta er lokahátíð og uppgjör. Smiðjurnar eru haldnar á tveggja mánaða fresti; fyrst í september, svo nóvember, þá janúar, mars og í lokin hátíð í maí. Hver smiðja er í viku í senn. Hver skóli er hvattur til að aðstoða nemendur til þess að halda áfram með sína listsköpun milli listasmiðjanna og gefi þeim tækifæri og tíma til þess að sinna henni í stundaskrá. Þannig stuðlum við einnig að einstaklingsmiðuðu námi.
Listamenn fara á milli skólanna fyrir yngri hópinn og fær hver hópur kennslu í sínum skóla en eldri hópurinn sameinast á Tálknafirði. Nemendur í yngri hóp fá fjölbreytta kennslu í öllum listgreinum en eldri hópurinn fær aukinn möguleika á að velja þá listgrein sem þeir hafa áhuga á og fara þannig dýpra í greinina. Kjarnalistgreinarnar eru tónlist og leiklist og verða í boði í öllum lotunum en á móti verður ein önnur listgrein í boði. Sem sagt þrjár listgreinar í hverri lotu.
 

Aðstandendur verksins
Birna Friðbjört S. Hannesdóttir er skólastjóri Tálknafjarðarskóla. Birna er fædd árið 1980 og uppalin á Bíldudal. Birna er með BS gráðu í ferðamálafræði, mastersgráðu í kennslufræði grunnskóla sem mastersgráðu í Forystu og stjórnun, auk þess hefur hún auka diplómu í stjórnun menntastofnana. Birna hefur starfað við margvísleg störf meðal annars sem verslunarstjóri Veitingastofunnar Vegamóta á Bíldudal, hún hefur unnið að verkefnum í ferðamálafræði þar með talið verkefnið Menning og saga á Bíldudal sem fékk styrk frá Menningarráði Vestfjarða. Það verkefni var síðar selt til annars aðila í ferðaþjónustu. Hún hóf störf sem skólastjóri í Tálknafjarðarskóla árið 2019 en hefur starfað þar áður sem leiðbeinandi/grunnskólakennari á sunnanverðum Vestfjörðum frá árinu 2014.
Kómedíuleikhúsið var stofnað árið 1997 og er fyrsta og eina atvinnuleikhús Vestfjarða. Leikhúsið hefur sett á svið 45 leikverk sem eiga það flest sameiginlegt að tengjast sögu Vestfjarða á einn eða annan hátt. Kómedíuleikhúsið hefur einbeitt sér að einleikjum sem hafa vakið mikla athygli bæði hér heima og erlendis. Stofnandi þess er Elfar Logi Hannesson, leikari, sem er fæddur árið 1971 og einnig uppalinn á Bíldudal. Elfar Logi hefur verið leikhússtjóri frá stofnum Kómedíuleikhússins. Hann hefur tekið þátt í öllum 47 leikritum leikhússins auk þess sem hann hefur tekið að sér ýmis hlutverk sem leikari ásamt því að sjá um leikstjórn ýmissa leikrita. Elfar Logi er vanur því að skipuleggja hátíðir, hann hefur meðal annars stjórnað Einleikjahátíðinni Act Alone frá árinu 2004 og er auk þess stofnandi þess.
 

Sjá fréttir um úthlutunina hér:

Vefur Stjórnarráðsins

Vefur Fréttablaðsins

Vefur BB



« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    
Næstu atburðir
Vefumsjón