A A A

Saga Tálknafjarðar

Tálknafjarðarkauptún er byggt að mestu leyti í landi Tungujarðanna við norðanvert Hópið, innsta hluta Tálknafjarðar. Sveinseyraroddi lokar þessum hluta fjarðarins, og gerir það að verkum að úthafsalda nær ekki inn. Skjól fyrir úthafsöldu og mikið aðdýpi gerir Hópið að frábærri höfn frá náttúrunnar hendi. Þessu kynntust útlendingar, sem stunduðu fiskveiðar hér við land, og höfðu m.a. Hollendingar hér aðstöðu fyrr á tímum og gengu svo langt, að skíra fjörðinn upp á nýt og merkja inn á kort sín. 

Nokkurt þéttbýli hefur löngum verið á þessum stað. Á 5. áratug aldarinnar var byggt hér frystihús og fjölgaði þá fólki á staðnum. Árið 1956 keypti frystihúsið fyrstu stálbátana til að auka umsvifin og reyna að halda í fólk á þeim búsetubreytingartímum sem þá voru. Samfeld aukning hefur síðan verið í uppbyggingu kauptúnsins en búskapur er nær alveg aflagður í hreppnum. 

Vegur liggur út með Tálknafirði að sunnan. Á þeirri leið eru nokkur eyðibýli, þröngir en brattir dalir og víða tignarleg náttúra. Á móts við kauptúnið er Lambeyri og fyrrum gekk þaðan ferja yfir Tálknafjörð enda aðeins um 200 metrar yfir á Sveinseyraroddann utan við kauptúnið. Frá Lambeyri má ganga yfir Lambeyrarháls og niður Litladal til Patreksfjarðar, er það skemmtileg ganga en krefjandi. 

Vestasti bær sunnan fjarðarins er Suðureyri, nú í eyði en fyrrum talin besta útvegsjörð við Tálknafjörð. Norðmenn reistu og ráku hvalveiðistöð á Suðureyri um og eftir síðustu aldamót. Var stöðin síðan starfrækt á ný á árunum 1930-40 en þá voru þar innlendir aðilar á ferð. Var hvalstöðin á innanverðri eyrinni og bryggja fram af Eyraroddanum og sjást enn miklar minjar þessara mannvirkja. Inn frá Suðureyri er Suðureyrardalur sem er mestur dala við sunnanverðan Tálknafjörð. 

Tálknafjarðarkauptún er nú snyrtilegt nútíma sjávarpláss, sem nýtur skjóls af Tungufelli og fjallgarðinum fyrir norðanátt. Heitar laugar, sem eru víða við norðanverðan fjörðinn, eru nýttar til fiskeldis og ennfremur til hitunar íþróttahúss og sundlaugar, sem opin er árið um kring og mikið stunduð af heimamönnum og gestkomandi.

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  
Næstu atburðir
Vefumsjón