A A A

Þorpið Tálknafjörður og nágrenni

Þorpið Tálknafjörður stendur í landi Tungu, það byggðist í kringum bryggju og hafnaraðstöðu sem byrjað var að reisa um 1945 og var viðurkennt sem kauptún árið 1967.  Í dag búa hér um 290 manns og hafa atvinnu af sjósókn og fiskvinnslu auk þjónustu.  Í Tálknafirði er sparisjóður þar sem einnig er póstafgreiðsla, matvöruverslun, tvö vélaverkstæði og bensínsala auk Veitingahússins Hópsins sem dregur nafn sitt af innri hluta fjarðarins.  


Sundlaugin og íþróttahúsið standa í landi Eyrahúsa á ofanverðum Sveinseyraroddanum ásamt skólahúsinu sem vígt var 1967 og stækkað fyrir nokkrum árum.  Sundlaugin sem var upphaflega byggð upp úr 1930 og stækkuð 1987, er 25 m löng með tveimur heitum pottum og vel hirtu umhverfi.  Við hana er mjög gott og vel búið tjaldstæði og í íþróttahúsinu er góð aðstaða fyrir hvers konar fundarhöld auk fullkominnar  íþróttaaðstöðu. 


Vatnið í sundlaugina kemur úr borholu í landi Litla-Laugardals.  Þar eru heitar laugar sem kallaðar eru Pollurinn í daglegu tali heimamanna. Pollurinn hefur borið hróður Tálknafjarðar víða því þar hefur oft verið gestkvæmt auk þess sem heita vatnið úr borholu sem boruð var þar 1977, er leitt í sundlaugina auk þess sem vatnið er einnig notað til að hita upp íþróttahúsið og skólann. 

 

Á Sveinseyraroddanum er mikið æðarvarp og fuglalíf.  Æðarvarpið er friðað á varptíma en auðvelt er fyrir áhugamenn að virða það fyrir sér af veginum út með firðinum sem liggur með fram varpinu.  Oddinn gengur langt út í fjörðinn og skýlir innsta hluta fjarðarins fyrir hafáttinni, um mjótt sund er að fara innfyrir oddann og þykir ókunnugum sjófarendum innsiglingin ekki fýsileg en á Hópinu fyrir innan oddann er gott skipalægi.  Á sjókortum Hollendinga frá miðöldum er Tálknafjörður merktur sem öruggt skipalægi og allt fram á þennan dag hafa skip oft leitað vars í Tálknafirði ef veður eru slæm.  Í fjörunni fyrir utan Sveinseyraroddann er hvítur skeljasandur eins og víðar í Tálknafirði og öllum heimil umferð um fjöruna.

 

Fyrir ofan tjaldstæðið er skógarreitur sem byrjað var að gróðursetja í fyrir 1940 af börnum í Tálknafirði, þar eru margar plöntutegundir og sumar sjaldgæfar á Vestfjörðum eins og til dæmis bláklukkan sem vex alla jafna ekki villt á Vestfjörðum.  Skógaráhugamenn í Tálknafirði hafa haldið gróðursetningarstarfi áfram og nú nær skógræktin uppundir Bæjarfjallið fyrir ofan tjaldstæðið og upp að Hólsánni sem rennur framhjá þorpinu.  Frá tjaldstæðinu og upp í þorp liggur göngustígur sem kallaður er Brynjólfsbrautin, til heiðurs Brynjólfi Gíslasyni sem var sveitarstjóri hér í mörg ár og mikill áhugamaður um skógrækt.

 

Merkt gönguleið er yfir Tunguheiði frá Tálknafirði til Bíldudals og hefst gönguleiðin innst í götunni Móatún sem er efsta gatan í þorpinu. Þaðan liggur gatan upp hlíðina í Tungufellinu innanverðu og fram Tungudal og þaðan yfir fjallið Hálfdán og niður í Bíldudal.  Gangan tekur 4-5 klst og er tiltölulega auðveld en hafa ber þó í huga að hún liggur upp í um 500 m hæð yfir sjávarmáli þar sem hún er hæst.

« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    
Næstu atburðir
Vefumsjón