A A A

Stóri-Laugardalur að Stapa

Út með firðinum eru margir fallegir staðir sem gaman er að skoða og víða skemmtilegar gönguleiðir.  Áður hefur verið minnst á Pollinn sem er í landi Litla-Laugardals og næsti bær þar fyrir utan er Stóri-Laugardalur þar sem hin gamla sóknarkirkja Tálknafjarðar stendur. Kirkjan er vígð árið 1907 og þykir merkileg byggingarsögulega séð þar sem hún er norsk að uppruna og var efnið í hana flutt inn frá Noregi með hvalveiðiskipum Norðmanna sem gerðu út frá Suðureyri hinu megin fjarðarins.  Kirkjan á sér merkilega sögu og verður 100 ára á þessu ári.  Ný kirkja var vígð 2002 og stendur hún inn við þorp. 


Fyrir utan Stóra-Laugardal er bærinn Kvígindisfell sem talin er landnámsjörð Þorbjörns tálkna.  Milli bæjanna er Fagridalur og þar er ein af mörgum leiðum milli Tálknafjarðar og Arnarfjarðar og kemur gönguleiðin niður í Fífustaðadal í Arnarfirði.  Hún er ómerkt neðan til en framar í dalnum má sjá greinilegar vörður við slóðann og auðvelt að fara eftir leiðinni yfir fjallið.  Gangan yfir Fagradal tekur 6-7 klst og er tiltölulega létt en liggur í um 500 m hæð þar sem hún er hæst.

 

Ef haldið er áfram út með firðinum er ekið fram hjá eyðibýlum á Bakka, þar var margbýli en jarðirnar fóru í eyði 1946.  Í landi Bakka er flugvöllur sem byrjað var að byggja 1974 og er sögð sú saga um byggingu hans að Davíð Davíðsson frá Sellátrum, sem var forgöngumaður um byggingu vallarins, hafi fengið fjármagn sem átti að duga í fyrstu 500 metrana, meira fékkst ekki í bili og stóð sennilega ekki til að úthluta meiru.  Davíð lét ýta upp einum 200 metrum af vellinum yst við Sellátraána og fór síðan um það bil 700 – 800 metrum innar og lét ýta þar upp hinum enda vallarins en þá vantaði eina 4-500 metra á milli endanna.  Hann gekk síðan á fund ráðherra og sagðist þurfa fé til að endar næðu saman, það fékkst og völlurinn var notaður í nokkuð mörg ár, aðallega fyrir litlar vélar en hefur ekki fengið viðhald undanfarin ár.

 

Fyrir utan Bakka er jörðin Sellátrar þar sem eiginkona Davíðs, Guðrún Einarsdóttir listakona var fædd og uppalin og þau hjón bjuggu þar síðustu ár ævi sinnar.  Guðrún var mikil áhugamanneskja um gróður og skógrækt og þekkt fyrir verk sín þar sem hún steypti þurrkaðar jurtir í plast.  Garðurinn við Sellátra er verk hennar og enn sjást þar ýmsar plöntur sem ekki eru algengar á Vestfjörðum þó hann hafi látið á sjá að undaförnu. Lengra er ekki hægt að fara á bíl nema með leyfi landeigenda en auðveld gönguleið er áfram út með firðinum út að Arnarstapa og út í Krossadal. 


Á Arnarstapa er að öllum líkindum vestasti trjálundur í Evrópu og hafa skógfræðingar látið svo um mælt að tré eigi ekki að geta vaxið þarna en það vita blessaðar plönturnar ekki og því standa þarna nokkurra metra há tré og bjóða vestanáttinni byrginn, okkur gestum þeirra til skjóls og yndisauka. Í fjörunni fyrir neðan Stapa eins og jörðin er nefnd í daglegu tali eru leifar af verbúðum sem notaðar voru við útróðra úr Stapavíkum fram undir 1930 af bændum úr Tálknafirði sem áttu þarna útræði.


Í Miðvíkinni, sem er víkin innan við Stapabæinn, voru þrjár varir og alls munu þar hafa verið fimm búðir við þessar varir.  Enn sér merki þessara verbúða og sumarið 1998 var gerð gangskör að því að endurreisa veggi þeirra búða sem enn sáust og var unnið við það verk í sjálfboðaliðavinnu af gestum og heimamönnum.


Lendingarnar í Miðvík báru nöfnin Blaðra, Miðvíkurvör og Hleinavör og sér þeirra merki enn þó langt sé síðan þær voru ruddar síðast.  Uppi í árdalnum ofan við tóttir verbúðanna má sjá greinileg merki grjótgarða sem notaðir voru til að þurrka steinbít á og af sumum verið kallaðir hrýgjugarðar.  Ástæðan fyrir þessari nafngift var að þegar steinbíturinn var aðeins farinn að harðna var óhætt að hrúga honum meira saman á görðunum til að hægt væri að koma meiri fiski fyrir í einu.

« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    
Næstu atburðir
Vefumsjón