A A A

Stapavík, Krossadalur og úteftir

Þegar haldið er áfram út á túnið á Stapa blasa Staparnir við, tveir bergstapar sem rísa upp úr sjónum í Stapavíkinni.  Þar fyrir utan er Stapahlíðin og eftir henni liggur greinileg gata út í Krossadal, ysta bæinn við Tálknafjörð.  Síðasti ábúandi í Krossadal var Samúel Jónsson sem oft hefur verið nefndur listamaðurinn með barnshjartað. Samúel Jónsson var fæddur að Horni í Mosdal á Langanesi í Arnarfirði 1884 og ólst upp hjá móður sinni en föður sinn missti hann fárra ára. Móðir Samúels var Guðríður Guðmundsdóttir og vann hún fyrir þeim mæðginum sem vinnukona víða en lengst af þó í Selárdal.  Þegar Samúel var átján ára fékk hann ábúð á hjáleigu frá Selárdal sem nefndist Tóft en fljótlega byggði hann nýbýli í Selárdalslandi sem hann nefndi Fossá og bjó þar nokkur ár með móður sinni.  

Móðir hans lést 1916 og réðst þá til Samúels ráðskona að nafni Salóme, áttu þau saman þrjú börn sem öll dóu í bernsku.  Úr Selárdal fluttu þau Samúel og Salóme að Krossadal í Tálknafirði þar sem þau bjuggu um tuttugu ára skeið.  Þar byggði Samúel upp steinsteypt bæjar og peningshús sem þóttu nýstárleg að mörgu leiti, m.a. var haughús undir fjósinu.  Samúel notaði járn úr togaranum Pamelu frá Hull sem strandað hafði við Krossadal 1915 sem byggingarefni með steypunni og einnig var járnið notað í girðingarstaura sem enn standa í Krossadal.  Hann hafði ekki önnur verkfæri til að ná sundur skipinu en hamar og meitil og má ætla að það hafi verið þolinmæðisverk.  Enn sjást rústir af íbúðarhúsinu sem Samúel byggði í Krossadal þó það sé nú fallið að mestu. 


Úr Krossadal flutti Samúel að Melstað í Selárdal árið 1947 og byggði þar upp eins og annarsstaðar og nefndi staðinn Brautarholt.  Hann hafði lengi málað myndir í frístundum sínum og þegar Selárdalskirkja varð 100 ára 1952 málaði hann altaristöflu til að gefa kirkjunni. Sóknarnefnd afþakkaði töfluna þar sem fyrir í kirkjunni var um 200 ára gömul altaristafla.  Samúel hófst þá handa við að byggja kirkju fyrir altaristöfluna og stendur hún í Brautarholti.  Í kringum kirkjuna standa síðan önnur verk Samúels m.a. eftirlíking af ljónagosbrunninum í Alhambra á Spáni sem hann hafði séð myndir af.   Þar er einnig stytta af strák sem er að gefa sækýr að éta og af Leifi heppna sem skyggir hönd fyrir augu þegar hann hefur landsýn af Vínlandi auk margra annara sem því miður hafa látið á sjá gegn tímans tönn en eru engu að síður vitnisburður um sköpunarþrá manns sem lét ekkert aftra sér frá því að fá þessari þrá fullnægt.  Í Brautarholti er einnig minnisvarði um Samúel Jónsson sem Jón Kr. Ólafsson söngvari á Bíldudal hafði forgöngu um að láta setja upp.  Á undanförnum árum hefur mikið starf verið unnið við endurgerð listaverka Samúels í Selárdal og er enn unnið að því verki. 


Úr Krossadal er stikuð gönguleið yfir í Selárdal yfri Selárdalsheiði og mun þessi leið hafa verið ein af aðalleiðunum milli fjarðanna þar sem presturinn í Selárdal þjónaði Stóra-Laugardalskirkju frá því um 1700 og fram til 1907 þegar sóknin fór undir Patreksfjarðarprestakall. Fermingarbörn úr Tálknafirði fóru því þessa leið er þau gengu til spurninga hjá prestinum í Selárdal.  Frammi í Krossadal er brekka sem kölluð var Silfurbrekka og er talin hafa fengið nafn sitt af því þegar presturinn í Selárdal áði þar og taldi silfrið sem hann hafði innheimt af sóknarbörnunum í Tálknafirði.  Á miðri Selárdalsheiði stendur stór varða sem kölluð er Biskupsvarða og lét Hannibal Valdimarsson, alþingismaður sem lengi bjó í Selárdal hlaða hana upp aftur fyrir nokkrum áratugum.  Varðan hefur hins vegar látið á sjá og orðin þörf að að hlaða hana upp aftur.  Leiðin yfir Selárdalsheiði er greiðfær gönguleið, vörðuð að mestu leyti og tekur 5-6 tíma að fara hana yfir í Tálknafjörð.  Þegar komið er niður af heiðinni Selárdalsmegin er bærinn Uppsalir þar sem Gísli Gíslason bjó og þekktur varð úr þættinum Stiklum þar sem Ómar Ragnarsson heimsótti Gísla.

 

Utan við Krossadal eru svo Rimahlíðar og enn utar Selárdalshlíðar, þær eru brattar og skriðurunnar og ekki ráðlegt að leggja í þær nema vönum fjallamönnum með góðan búnað.  Yst á fjallgarðinum er fjallið Kópur og Kópavík og er aðgengi að Kópavík auðveldast úr Verdölum í Arnarfirði.  Er þá farið út í Selárdal og gengið í Verdali og upp úr Ystadal yfir í Kópavík.  Gönguleiðin er mjög brött og erfið og það borgar sig að leita leiðsagnar hjá heimamönnum áður en farið er af stað.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        
Næstu atburðir
Vefumsjón