A A A

Brautskráning úr fiskvinnslunámi hjá Odda og Þórsbergi

1 af 3

Í síðustu viku brautskráði Fræðslumiðstöð Vestfjarða um 80 manns úr grunnnámi fiskvinnslu í fyrirtækjunum Odda á Patreksfirði og Þórsbergi á Tálknafirði. Námið var 60 kennslustundir og kennt samkvæmt vottaðri námskrá Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins, en vottaðar námsskrár er heimilt að meta til eininga í framhaldsskólum.

 

 Kennsla hófst í nóvember og var sinnt bæði af heimafólki og utanað komandi. Vegna þess að margir þátttakandanna voru frá Póllandi var pólskur túlkur fenginn til að búa á Patreksfirði á meðan á kennslunni stóð. Var þá notað tækifæri og slegið upp tveimur íslenskunámskeiðum fyrir Pólverjana, sem um 30 manns nýttu sér bæði úr Odda og Þórsbergi.

 

Á meðan á fiskvinnslunámskeiðunum stóð var mikil vinna í frystihúsunum og því talsvert púsl að skipuleggja nám og vinnu. Lögðust allir á eitt að láta það ganga, jafnt fyrirtækin, starfsfólkið sem kennarar. Er þeim hér með öllum þakkað einkar gott samstarf.

 

Fiskvinnslunám það sem hér var kennt er samskonar og Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar hefur staðið fyrir um mörg ár og gefur starfsheitið sérhæfður fiskvinnslumaður. Nám þetta er samningsbundið og metið til launa. Undanfarin ár hefur verið lægð í kennslu fiskvinnslunámsins, meðal annars af því að það var flutt úr gamla sjávarútvegsráðuneytinu yfir í mennta- og menningarmálaráðuneytið. Árið 2012 hófst kennsla þessa náms aftur af krafti og hefur nú mikill meirihluti fiskvinnslufólks á Vestfjörðum lokið grunnnáminu.

 

Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar stendur fyrir framhaldsnámi fyrir fiskvinnslufólk. Er það mun styttra en grunnnámið og ekki á vegum símenntunarmiðstöðvanna enn sem komið er.

« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Næstu atburðir
Vefumsjón