Breytingar á meðferð úrgangs á Tálknafirði og í Vesturbyggð
Sorphirða og eyðing er viðamikil í starfsemi sveitarfélaga, því er til mikils að vinna að vel takist til með málaflokkinn þannig að íbúar sem greiða fyrir sorphirðu og eyðingu fái sem besta þjónustu á sem sanngjarnasta verði hverju sinni.
Byrjað verður að útdeila 120 lítra tunnum til íbúa 1. desember nk. og hefst þar með söfnun á lífrænum úrgangi í sveitarfélögunum tveimur. Með þessari aðgerð verður hafist handa við að moltugera lífrænan úrgang sem kemur frá sveitarfélögunum tveimur. Jafnframt munu svokölluð innstingihólf verða sett í endurvinnslutunnur við heimili í fljótlega í desember, en í þær tunnur verður þá hægt að setja plast, niðursuðudósir ásamt krukkulokum í tunnur, til viðbótar við þá flokka sem nú þegar er hægt að setja í endurvinnslutunnur.
Nú á haustdögum var skrifað undir samning við Kubb ehf til næstu fjögurra ára, með heimild til framlengingar, þar sem fyrirtækið tekur að sér þjónustu við sveitarfélög á sunnanverðum Vestfjörðum í söfnun og flutningi sorps. Þessi niðurstaða er afrakstur þeirrar vinnu sem unnin hefur verið síðustu mánuðum með það að markmiði að bjóða út sorphirðu og umsýslu sorpmála í sveitarfélaginu, gera málaflokkinn gegnsærri og að flokkun og endurnýting á úrgangsflokkum geti aukist. Kostnaður við sorphirðu og eyðingu á landinu öllu mun á næstu misserum, hækka mjög hratt og oft mest í sveitarfélögum þar sem vegalengdir milli söfnunar og urðunnarstaða eru hvað lengstar.
Sýnilegir hlutar þess að verið sé að vinna að áherslubreytingum í sorpmálum og Tálknafjarðarhreppur sé komið af stað við að uppfylla lagaákvæði sem taka mun gildi 1. janúar 2023, munu koma í ljós á næstu dögum, vikum og mánuðum. Nú þegar hefur nýr sorpbíll komið á svæðið sem er tvískiptur og getur því safnað tveimur úrgangsflokkum í sömu ferð. Strax í byrjun desember mun svo verða frekari breyting í málaflokknum, en þá munu bætast við flokkar í sorphirðu sem sóttir verða að húsum íbúa. Frekari kynning mun fljótlega fara fram fyrir íbúa þar sem betur verður farið yfir þá endurvinnsluflokka sem um ræðir, frágang á lífrænum efnum, hreinlæti efna og annarra atriða sem íbúar munu fá upplýsingar og fræðslu um. Starfsfólk sveitarfélaganna og starfsmenn Kubbs ehf munu sameiginlega standa að slíku.
Gjaldtaka mun taka breytingum frá og með þeim tíma er fasteignargjöld fyrir árið 2022 munu koma til greiðslu þann 1. febrúar 2022, en frá þeim tíma munu klippikort falla úr gildi og í stað þeirra munu þeir sem þurfa að losna við sorp á móttökusvæðum greiða fyrir þá losun á staðnum. Ekki verður þó greitt fyrir endurvinnanlegt efni, svo sem pappa. Með þessu jafnast munur á milli þeirra sem búa til lítið sorp á móti þeim sem búa til meira sorp, þannig að þeir greiða meira sem menga meira í samræmingu við innleiðingu hringrásarhagkerfisins.
Jafnhliða því og unnið verður í samræmi við ný lög um meðferð úrgangs, þar sem aðskilnaður milli íbúa og fyrirtækja verður greinilegri, munu íbúar greiða fyrir sorphirðu og eyðingu með einfaldari hætti samhliða fasteignargjöldum. Þannig muni sveitarfélagið geta uppfyllt ákvæði laga um meðferð úrgangs þar sem kemur fram að sveitarfélögum sé skylt að innheimta gjald sem næst raunkostnaði við viðkomandi þjónustu, svo sem með því að miða gjaldið við magn úrgangs, gerð úrgangs, losunartíðni, frágang úrgangs og aðra þætti sem áhrif hafa á kostnað við meðhöndlun úrgangs viðkomandi aðila.
Með framangreindum breytingum í skipulagi úrgangsmála, munu Tálknafjarðarhreppur og Vesturbyggð verða meðal þeirra fremstu í meðferð úrgangsflokka til endurnýtingar og tekur þannig jákvæð skref í átt að kolefnisjöfnuði til framtíðar. Íbúar á Tálknafirði og í Vesturbyggð gegna þannig lykilhlutverki við flokkun úrgangs svo vel takist til við að innleiða breytingarnar með aukinni þjónustu og aðstöðu til flokkunar innan sveitarfélagsins.
Fleiri fréttir
Fundargerðir
- Sveitarstjórn | 637. fundur sveitarstjórnar 14. maí 2024
- Sveitarstjórn | 636. fundur sveitarstjórnar 30. apríl 2024
- Íþrótta-, menningar- og æskulýðsnefnd | 17. fundur 18. apríl 2024
- Skipulagsnefnd | 16. fundur skipulagsnefnar 16. apríl 2024
- Fræðslunefnd | 18. fundur fræðslunefndar 15.04.2024
- Sjá allar fundargerðir