Fjárhagsáætlun samþykkt
Fjárhagsáætlun ársins 2021, ásamt gjaldskrám og fjárfestingaráætlun, var samþykkt við síðari umræðu sem fór fram á 567. fundi sveitarstjórnar sem var haldinn 21. desember 2020.
Fjárhagsáætlun Tálknafjarðarhrepps fyrir árið 2021 og þriggja ára áætlun áranna 2022-2024 markast af þeirri efnahagslegu óvissu sem nú er og mótar mjög rekstrarumhverfi íslenskra sveitarfélaga. Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árin 2021-2024 var unnið út frá ýmsum forsendum, svo sem hagspám, áætlun Sambands íslenskra sveitarfélaga um útsvarstekjur, fasteignamati og áætlun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Það ljóst að margir áhrifaþættir eru markaðir mikilli óvissu og þar skiptir mestu hver þróun heimsfaraldurs vegna covid-19 verður næstu ár og misseri. Í forsendum fjárhagsáætlunar er álagningarhlutfall útsvars óbreytt frá fyrri árum, eða 14,52% og álagningahlutfall fasteignagjalda er óbreytt frá fyrra ári. Ýmsir rekstrarliðir eru hækkaðir til samræmis við spár um verðlagsbreytingar. Þjónustugjaldskrár eru flestar hækkaðar til samræmis við það 2,5% mark sem er skilgreint í lífskjarasamningunum.
Í rekstraráætlun A og B hluta eru heildartekjur áætlaðar 390,9 mkr. og framlegð rekstrar fyrir afskriftir og fjármagnsliði 9,2 mkr. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða er rekstrarniðurstaða neikvæð, þannig að rekstrarhalli samstæðu A og B hluta er áætlaður 34,5 mkr. Sveitarstjórn hefur ekki ráðist í hagræðingu í rekstri í áætlun ársins 2021 og svarar þar með því kalli að ríki og sveitarfélög dragi ekki saman seglin á erfiðum tímum. Þetta felur í sér að þjónustustig sveitarfélagsins verður ekki skert og áhersla er lögð á að viðhalda þjónustu og ráðist í nauðsynlegar fjárfestingar á vegum sveitarfélagsins. Gengið er út frá því að það ástand sem uppi er í samfélaginu sé tímabundið og því gert ráð fyrir því að allir þættir í rekstri sveitarfélagsins verði teknir til endurskoðunar til að tryggja að hann verði sjálfbær til framtíðar líkt og gert er ráð fyrir í þriggja ára áætlun.
Gert er ráð fyrir töluverðum fjárfestingum á vegum Tálknafjarðarhrepps þrátt fyrir þrönga stöðu og þá óvissu sem er í kortunum. Unnið verður að endurnýjun vatnslagna og gólfefna í íþróttamiðstöðinni, ráðist í nauðsynlegar framkvæmdir við Strandgötuna samhliða framkvæmdum Vegagerðarinnar. Gert er ráð fyrir fjárframlagi til byggingar þjónustuíbúða og þar með komið til móts við þá eftirspurn sem er eftir íbúðahúsnæði í sveitarfélaginu. Þá er gert ráð fyrir fjármagni til framkvæmda við Tálknafjarðarhöfn sem verða nánar skilgreindar með hafnasviði Vegagerðarinnar á fyrri hluta árs 2021 og þar með tryggt að fjármagn á samgönguáætlun nýtist. Samtals er áætlað fjárfesting sveitarfélagsins í ofangreindum verkefnum nemi 80 mkr. og er gert ráð fyrir lántöku upp á kr. 77 mkr. til að mæta fjárþörfinni. Gert er ráð fyrir að skuldaviðmiðið 2021 samkvæmt reglugerð 502/2012 verði í árslok 96,3% sem er vel undir því 150% hámarki sem er skilgreint í sveitarstjórnarlögum. Áætlað er að handbært fé í árslok 2021 verði neikvætt um 1,7 mkr. en því verði svo snúið við á árinu 2022.
Fleiri fréttir
Fundargerðir
- Sveitarstjórn | 637. fundur sveitarstjórnar 14. maí 2024
- Sveitarstjórn | 636. fundur sveitarstjórnar 30. apríl 2024
- Íþrótta-, menningar- og æskulýðsnefnd | 17. fundur 18. apríl 2024
- Skipulagsnefnd | 16. fundur skipulagsnefnar 16. apríl 2024
- Fræðslunefnd | 18. fundur fræðslunefndar 15.04.2024
- Sjá allar fundargerðir