Framkvæmdasumarið 2021
Það verður mikið um framkvæmdir hér á Tálknafirði sumarið 2021. Stærsta framkvæmdin sem sveitarfélagið sjálft stendur fyrir er endurnýjun hitalagna og gólfa í Íþróttamiðstöðinni auk þess sem aðstaða starfsfólks til laugargæslu er löguð. Það verk hefur staðið yfir nú í vor og er stefnt að því að sundlaugin geti opnað aftur 1. júní. Þá verður lagt nýtt parket á íþróttasalinn og verður hann tilbúinn fyrir haustið.
Sú framkvæmd sem fólk mun samt finna mest fyrir er endurnýjun Strandgötunnar. Það verkefni er á vegum Vegagerðarinnar en unnið í samstarfi við Tálknafjarðarhrepp. Vegurinn verður endurnýjaður frá Hlíð og alla leið að Dunhaga. Í leiðnni verða kantsteinar endurnýjaðir sem og gangstétt frá Lækjargötu og alla leið að göngustígnum sem liggur að Tálknafjarðarskóla. Undirbúningur verksins er á lokametrunum. Það verður væntanlega boðið út nú á vormánuðum og framkvæmt að stærstum hluta í sumar.
Það eru ýmis önnur verk í pípunum hjá sveitarfélaginu sem mun ekki fara jafn mikið fyrir. Í samstarfi við framkvæmdassvið Vegagerðarinnar er nú unnið að þarfagreiningu vegna uppbygginar og endurnýjunar ytri bryggju hafnarinnar en sú framkvæmd er á samþykktri samgönguáætlun ríkisins. Á næstu vikum verða rafmagnslagnir og tengingar á bryggjunni endurnýjaðar og er það hluti af þessu verki. Þá er gert ráð fyrir fjármagni til að ganga frá nýrri aðstöðu í Nýjabæ, en vinna þarf frekari undirbúningsvinnu áður en hægt er að fara í verkefnið sjálft. Þá eru ýmis smærri verkefni sem verða unnin og má sem dæmi nefna endurnýjun á neðri göngubrúnni yfir Hólsá, en hún var orðin lúin og hættuleg.
Á Tálknafirði eru svo einnig í gangi verkefni sem tengjast ekki sveitarfélaginu sjálfu með beinum hætti. Þar vil ég sérstaklega nefna tvö stór verkefni. Annars vegar er verið að byggja nýja brú yfir Botnsá og ganga frá vegtenginum við hana á vegum Vegagerðarinnar. Hins vegar er Arctic að fara að stækka seiðaeldisstöðina sína í Norður-Botni og er það verkefni sem væntanlega verður í gangi næstu tvö árin.
Þó svo að það verði ýmislegt í gangi sumarið 2021 þá vitum við Tálknfirðingar að enn eru mörg verkefni sem eru aðkallandi og verður að fara í á næstu árum. Þar vil ég sérstaklega nefna endurnýjun á íbúagötum sem eru löngu úr sér gengnar. Því miður er það verkefni ekki á áætlun þessa árs en gert ráð fyrir því í langtímaáætlunum sveitarfélagsins.
Þessi orð eru skrifuð á fyrsta degi Hörpu, sem er fyrsti mánuður sumars samkvæmt gamla íslenska tímatalinu. Í dag þekkjum við daginn sem sumardaginn fyrsta. Ég vil því nota tækifærið og óska öllum gleðilegs sumars sem ég vona við getum öll notið sem best.
Ólafur Þór Ólafsson
sveitarstjóri
Fleiri fréttir
Fundargerðir
- Sveitarstjórn | 637. fundur sveitarstjórnar 14. maí 2024
- Sveitarstjórn | 636. fundur sveitarstjórnar 30. apríl 2024
- Íþrótta-, menningar- og æskulýðsnefnd | 17. fundur 18. apríl 2024
- Skipulagsnefnd | 16. fundur skipulagsnefnar 16. apríl 2024
- Fræðslunefnd | 18. fundur fræðslunefndar 15.04.2024
- Sjá allar fundargerðir