Hvert stefnum við?
- Grein eftir Magnús Ólafs Hansson
Samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur fólki á suðursvæði Vestfjarða fækkað um 40% frá árinu 1990. Með fækkandi fólki dregur jafnt og þétt úr allri þjónustu, eins og gefur að skilja.
Fyrir þriðjungi aldar eða kringum 1980 gat fólk á svæðinu sótt flesta þjónustu á Patreksfjörð. Þá var Patreksfjörður miðstöð allrar opinberrar þjónustu fyrir svæðið í heild – með símstöð, heilsugæslu, apóteki, sjúkrahúsi, bönkum, sýsluskrifstofu, lögreglustöð og pósthúsi.
Frá þessum tíma hefur alvarlega dregið úr þessari þjónustu.
Til að spyrna við fótum var gerð atlaga gegn þessari óheillaþróun með sameiningu hreppa á svæðinu í eitt stærra og öflugra sveitarfélag, Vesturbyggð. Næst þar á eftir ákváðu stjórnvöld að efla Vestfirði í heild með því að færa opinbera þjónustu frá Vesturbyggð til Ísafjarðar. Hver er eiginlega sú byggðastefna?
Við sem hér búum gerum okkur væntanlega öll ljósa grein fyrir því að almenn verslun í dreifbýli á erfitt uppdráttar þar sem fólksfækkun er viðvarandi, svo ekki sé minnst á gífurlegan kostnað við flutning á vörum.
Samt höfum við í rauninni hér á svæðinu í dag flesta grunnþætti sem gott sveitarfélag verður að hafa. Þar má nefna leikskóla, grunnskóla, framhaldsskóla, íþróttamiðstöðvar, banka, verslanir, heilsugæslu og sitthvað fleira. En allt kostar þetta peninga.
Hér er einnig fjölbreytt afþreying í boði á borð við leikfélög, kóra, ýmis félagasamtök og þjónustu við ferðafólk, svo sem veitingastaði. Flestir átta sig á því að ferðaþjónustan er í sókn.
En af hverju fluttist fólkið burt? Ekki var það vegna þess að svæðið hér sé almennt óhagstætt til búsetu. Nei, aldeilis ekki. Þó svo að hér sé víða bratt til fjalla, þá eru líka mikil og gjöful tún hjá bændum og auðvitað er hér mikil útgerð til fiskveiða. Svo er auðvitað laxinum að vaxa fiskur um hrygg, ef svo má komast að orði, og það vonandi heldur betur. Fyrir liðlega 50 árum var lagður akvegur hingað á suðursvæðið. Vegarstæðið hefur verið lagfært síðan á nokkrum stöðum þó langt sé í land að fullkomna það verk. Vegamálin eru reyndar efni í aðra og miklu stærri grein en þessa.
En: Getur verið að samstöðu vanti hjá fólkinu sem hér bjó/býr? Getur verið að félagslegir þættir hafi stuðlað að fólksfækkuninni?
Í litlum samfélögum gerist það því miður iðulega, að þegar einhver vill gera hluti sem gætu verið til uppbyggingar samfélaginu koma næstu nágrannar eða jafnvel burtfluttir og níða af viðkomandi skóinn og ekkert verður úr neinu. Illdeilur eru því miður allt of oft uppi meðal manna í okkar litla samfélagi.
Getur þetta verið ein af ástæðum fólksfækkunar hér?
Þekkjum við ekki flest illdeilur og það jafnvel innan fjölskyldna eða fyrirtækja? Því miður geta illdeilur verið svo hatrammar að fólk talast ekki við og hvor um sig lætur sem hinn sé ekki til, þó svo að þeir séu á sama stað á sama tíma.
Slíkt er afleitt, að ekki sé fastar að orði kveðið. Og ætti ekki að tíðkast meðal siðaðs fólks.
Nú verðum við að leggja allt slíkt til hliðar, kasta því út í hafsauga, og spýta í lófa. Það er ekkert annað í stöðunni. Viljum við ala börnin okkar upp í slíkum talanda, hugsun og gjörðum? Þetta er einfaldlega spurning um líf eða dauða þessa litla samfélags.
Við getum svo margt gert til að rífa okkur upp, við eigum svo mörg sóknartækifæri út um allt, bara ef við stöndum saman.
Það væri sorglegt ef tækifærin yrðu ekki nýtt til að hlúa að og byggja enn frekar upp þessi frábæru heimkynni okkar.
Barðstrendingurinn og þjóðskáldið séra Matthías Jochumsson kvað: Sendum út á sextugt djúp / sundurlyndisfjandann!
Við skulum gera þessi orð hans að okkar orðum.
Vinsamlegast.
– Magnús Ólafs Hansson, Patreksfirði.
Fleiri fréttir
Fundargerðir
- Sveitarstjórn | 637. fundur sveitarstjórnar 14. maí 2024
- Sveitarstjórn | 636. fundur sveitarstjórnar 30. apríl 2024
- Íþrótta-, menningar- og æskulýðsnefnd | 17. fundur 18. apríl 2024
- Skipulagsnefnd | 16. fundur skipulagsnefnar 16. apríl 2024
- Fræðslunefnd | 18. fundur fræðslunefndar 15.04.2024
- Sjá allar fundargerðir