A A A

Konur í kreppu?

Samantekt á opinberum tölulegum gögnum á áhrifum efnahagshrunsins á velferð kvenna.

 

Skýrslan var unnin fyrir stýrihóp velferðarvaktarinnar sem skipaður er af velferðarráðherra. Skýrsluhöfundar eru Eva Bjarnadóttir og Eygló Árnadóttir.

 

Nálgast má skýrsluna í heild sinni hér.

 

Helstu niðurstöður:

  • Formlegt jafnrétti er mun meira en raunverulegt jafnrétti.
  • Tekjur eru lykilatriði í ákvörðun karla um að taka fæðingarorlof, til dæmis vegna kynbundins launamunar, sem veldur því að tekjutap fjölskyldunnar er líklegra til að verða meira við fæðingarorlof föður.
  • Launamunur kynjanna í efnahagskreppunni hefur minnkað. Karlar hafa fremur orðið fyrir beinni launaskerðingu, sérstaklega hjá launahæstu hópunum vegna kreppunnar meðan konur taka frekar á sig skerðingu á starfshlutfalli.
    • Konur eru í meirihluta þeirra sem telja sig ekki geta mætt óvæntum útgjöldum eða eiga erfitt með að ná endum saman. Rúmlega 50% einstæðra barnlausra kvenna eru í þeirri stöðu á móti 40% karla.
    • Af þeim sem skráðir eru „ekki í vinnu“ árið 2009 eru 5.800 konur sem lifa undir lágtekjumörkum á móti 3.300 körlum.
    • Einstæðar mæður eru 91,4% einstæðra foreldra. Launamunur kynjanna, kynjaskiptur vinnumarkaður og hátt hlutfall kvenna í námi benda til þess að konur séu frekar í lægra launabilinu en karlar í því hærra.
    • Enn má tala um hefðbundnar kvennastéttir og karlastéttir. Konur eru meirihluti ríkisstarfsmanna svo opinber niðurskurður hefur meiri áhrif á atvinnustöðu kvenna en karla, sérstaklega í umönnunarkerfinu, þ.e. heilbrigðisgeiranum, leikskólum og grunnskólum.
    • Á sama tíma og búin eru til störf fyrir karla eru kvennastörf skorin niður. „Mannaflsfrekar framkvæmdir“ meðal opinberra aðgerða til að skapa fleiri störf eru til marks um karllæga slagsíðu í atvinnuþróunarstefnu, en slíkar framkvæmdir, auk stóriðju, skapa fyrst og fremst störf sem einungis karlar velja.
    • Í kjölfar hrunsins hefur háskólanemum fjölgað og dregið ögn saman með kynjunum, þótt konur í framhaldsnámi séu áfram í miklum meirihluta. Atvinnuþátttaka háskólanema hefur breyst kynbundið í kreppunni. Árið 2007 unnu fleiri karlar en konur launavinnu með námi en dæmið hafði snúist við 2010. Karlar vinna þó enn fleiri vinnutíma á viku.
    • Breytingar hjá hinu opinbera koma almennt þyngra niður á konum, en breytingar á almennum vinnumarkaði harðar niður á körlum. Atvinnuleysisþróunin frá hruni fylgir þekktu kynjamynstri – karlar missa fyrr vinnu í kjölfar kreppu en áhrifin á atvinnuleysi kvenna eru lengur að birtast og sveiflurnar eru mun minni meðal kvenna en karla.
    • Frá bankahruninu hafa karlar verið í meirihluta atvinnulausra á höfuðborgarsvæðinu, en á landsbyggðinni hafa kynin reglulega skipst á að tilheyra meirihluta á atvinnuleysisskrá. Atvinnulausir karlar eru ólíklegri en konur til að skrá sig í hvers kyns vinnumálaúrræði.
    • Samkvæmt skráningu lögreglu hefur málum heimilisófriðar og -ofbeldis farið fækkandi síðan árið 2007. Komum í Kvennaathvarfið hefur þó fjölgað og voru flestarárið 2010.
    • Hlutfall kvenna af erlendum uppruna sem leita til Kvennaathvarfsins er hátt miðað við hlutfall þeirra í samfélaginu almennt og hefur aldrei verið hærra en árið 2010.
    • Erfitt er að meta hvort kynferðisbrotum hafi fjölgað vegna kreppunnar því tilkynningum til lögreglu hefur fjölgað stöðugt síðan árið 2004. Fjölgunin virðist þannig í fljótu bragði ótengd efnahagsástandi.
    • Tíðni koma á Neyðarmóttöku vegna nauðgana hefur ekki aukist eftir að efnahagskreppan skall á.
    • Árið 2009 voru karlar 96,4% kærðra fyrir kynferðisbrot eða 185 karlar á móti sjö konum.
    • Ákvæði almennra hegningarlaga um vændi tóku breytingum árið 2007 og 2009. Nú er ólöglegt að greiða fyrir, hafa atvinnu af og hafa milligöngu um vændi. Lögreglumálum hefur fjölgað talsvert eftir lagabreytinguna.
    • Tilkynningar til barnaverndarnefnda eru frekar vegna stráka, en stúlkur eru aftur á móti í miklum meirihluta skjólstæðinga Barnahúss sem þolendur kynferðisofbeldis. Jafnframt tilkynna stúlkur í meðferð frekar um kynferðislega misnotkun og eru oftar þunglyndar en strákar.
    • Fjöldi fæðinga hefur aukist jafnt og þétt síðan árið 2003. Mest er fjölgunin í Reykjavík og nágrannasveitarfélögum, auk þess á Akureyri. Tíðni fæðinga hjá yngsta hópnum, 15–24 ára, hefur farið lækkandi ár frá ári, en hjá þeim eldri hækkar hún á móti og tók stökk árið 2009. Milli áranna 2008 og 2009 fjölgaði sérstaklega fæðingum barna mæðra á aldrinum 30–34 ára. Á árinu 2009 varð talsverð fjölgun barna sem fæddust foreldrum sem ekki voru skráðir í sambúð og hafa þær fæðingar aldrei verið fleiri síðastliðinn áratug.
    • Árið 2009 varð fjölgun í fóstureyðingum meðal allra aldurshópa, að hópnum 15–19 ára undanskildum. Þá fækkaði bæði fóstureyðingum og fæðingum, en fóstureyðingar í þeim hópi ekki verið færri síðan árið 1991. Mest fjölgaði fóstureyðingum meðal 25–29 ára kvenna, alls voru þær 244 árið 2009 og hafa aldrei verið fleiri fóstureyðingar í þeim hópi.
    • Ófrjósemisaðgerðum hefur fækkað síðan árið 2000, en hlutfall karla og kvenna sem gangast undir ófrjósemisaðgerðir hefur snúist við. Mun fleiri karlar en konur fara nú í slíka aðgerð.
    • Konur eru 64% viðtakenda lyfjaávísana, flestar  á aldrinum 15–74 ára. Neysla á svefnlyfjum og róandi lyfjum hefur aukist mikið síðan 2006. Notkun á lyfjum við athyglisbresti og ofvirkni hefur aukist mikið undanfarin ár, fyrst og fremst meðal fullorðinna, sérstaklega fullorðinna kvenna.

 

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        
Næstu atburðir
Vefumsjón