Kynningarfundur Matís á sunnanverðum Vestfjörðum
Mánudaginn 18. júní kl. 17.00 verður haldinn kynningarfundur á starfsemi Matís í félagsheimilinu á Bíldudal.
Sérfræðingar frá Matís í Reykjavík, Snæfellsnesi og sunnanverðum Vestfjörðum verða á staðnum til að kynna starfsemi Matís og þá möguleika sem felast í opnun starfsstöðvar Matís á sunnanverðum Vestfjörðum og á Snæfellsnesi.
Allir sem áhuga hafa eru boðnir velkomnir á fundinn til að kynna sér starfsemi Matís og hvaða möguleikar eru í boði á rannsóknum og aðstoð Matís við uppbyggingu atvinnulífs á svæðinu. Matís er þekkingar- og rannsóknafyrirtæki sem vinnur að þróun og nýsköpun i matvælaiðnaði, líftækni og matvælaöryggi. Matís veitir ráðgjöf og þjónustu til fyrirtækja í sjávarútvegi og landbúnaði, sem og íslenska ríkinu. Sem dæmi kemur Matís að þróun á nýjum vörum og ferlum fyrir fyrirtæki og hefur mikilvægu hlutverki að gegna varðandi gæði og öryggi matvæla.
Matís mun vinna með fyrirtækjum, sveitastjórnum og einstaklingum á svæðinu sem munu geta nýtt sér sérfræðiþekkingu Matís til uppbyggingar sinnar eigin starfsemi. Starfsemi Matís við Breiðafjörð byggir á traustu og öflugu samstarfi við heimamenn enda hafa þeir haft frumkvæði að þeirri uppbyggingu sem Matís ræðst nú í.
Mikil tækifæri eru til aukinnar verðmætasköpunar á svæðinu. Sjávarútvegur er lykilatvinnugrein í stöðugri þróun en auk þess liggja sóknarfæri í uppbyggingu fiskeldis og nýtingu annarra hráefna á svæðinu. Á sunnanverðum Vestfjörðum er mikil gróska í fiskeldi og kröftug uppbygging á því sviði. Starfsemi Matís mun styðja við nauðsynlega rannsókna- og þróunaruppbyggingu í tengslum við fiskeldi, en horft er til þess að þjónusta við eldistengda starfsemi verði eitt helsta viðfangsefni starfsmanna Matís á svæðinu. Þar sem stærsti kostnaðarliður fiskeldis liggur í fóðri og fóðrun er ekki hvað síst horft til þróunar er lýtur að lágmörkun fóðurkostnaðar.
Efling matvælaframleiðslu mun gegna lykilhlutverki í aukinni verðmætasköpun á sunnanverðum Vestfjörðum og við Breiðafjörðinn. Einstaklingar og fyrirtæki sem áhuga hafa á framleiðslu á matvælum úr hráefni af svæðinu eru sérstaklega boðnir velkomnir á fundinn til að kynna sér starf Matís og þau tækifæri sem það hefur upp á að bjóða til frekari vöruþróunar og framleiðslu. Fullvinnsla afurða skapar verðmæta vöru og aukna tekjumöguleika ásamt fjölbreyttara atvinnulífi og meira vöruúrvali. Sunnanverðir Vestfirðir hafa mikla möguleika á meiri úrvinnslu úr því hráefni sem hér er framleitt til sjós og lands og án efa eru margar hugmyndir hjá íbúum svæðisins sem eru vel þess virði að hrinda í framkvæmd.
Starfsfólk Matís hvetur alla áhugasama til að koma og kynna sér starfsemina, hitta starfsfólkið og ræða málin. Við hlökkum til að takast á við komandi verkefni með sveitarfélögunum á svæðinu, fyrirtækjum og heimamönnum öllum og bjóðum ykkur velkomin á fundinn.
Matís , Vínlandsleið 12, Reykjavík, 422-5000, matis@matis.is
og starfsfólk Matís á sunnanverðum Vestfjörðum
Lilja Magnúsdóttir, 858-5085, liljam@matis.is
Hólmgeir Reynisson, 867-4553, holmgeir@matis.is
Fleiri fréttir
Fundargerðir
- Sveitarstjórn | 637. fundur sveitarstjórnar 14. maí 2024
- Sveitarstjórn | 636. fundur sveitarstjórnar 30. apríl 2024
- Íþrótta-, menningar- og æskulýðsnefnd | 17. fundur 18. apríl 2024
- Skipulagsnefnd | 16. fundur skipulagsnefnar 16. apríl 2024
- Fræðslunefnd | 18. fundur fræðslunefndar 15.04.2024
- Sjá allar fundargerðir