A A A

Sigríður Etna gefur út barnabók

Ég er 26 ára Tálknfirðingur en hef búið í Grindavík í rúm 4 ár. Bý hér með manninum mínum, sem er grindvíkingur og dóttur okkar. Mér líður mjög vel í Grindavík en Tálknafjörður á alltaf sérstakan stað í hjarta mér.
 

Það var ekki fyrr en ég fór að fara með stelpuna mína í sveitina til foreldra minna, ömmu hennar og afa, að ég áttaði mig á því hve heppin hún væri. Það er alls ekki sjálfsagt að börn fái að upplifa íslenskt sveitarlíf. Ég hugsaði með mér hvað ég gæti gert til að leyfa öðrum börnum að njóta þess ævintýris og þá spratt upp sú hugmynd að gefa út barnabók.

Ég kláraði að skrifa handritið af bókinni og fékk Margréti Pálsdóttur til að fara yfir textann. Næst hafði ég samband við frænku mína, Freydísi Kristjánsdóttur og bað hana um að myndskreyta bókina fyrir mig. Freydís er fagmaður fram í fingurgóma og eini listamaðurinn sem mig langaði að vinna þetta verkefni með. Ég fann svo útgefanda sem hafði trú á verkinu og er ótrúlega þakklát Óðinsútgáfu fyrir traustið. Núna um það bil 20 mánuðum seinna er bókin loksins orðin að veruleika.

Etna og Enok fara í sveitina hefur persónulega þýðingu fyrir mig. Önnur aðalsöguhetjan ber sama nafn og ég og dóttir mín. Dýrin í bókinni heita það sama og í sveit foreldra minna og sagan gerist í firðinum mínum, sem mér þykir gríðarlega vænt um, Tálknafirði. Þeir sem eru að vestan ættu að þekkja umhverfið um leið og þeir byrja að lesa bókina.
 
Hægt er að panta bókina í gegnum like-síðuna Etna og Enok fara í sveitina á facebook. Það er hægt að nálgast eintak hjá foreldrum mínum á Eysteinseyri og svo kem ég sjálf vestur fyrstu helgina í desember og ætla að kynna bókina þá.
 
Kær kveðja, Sigríður Etna
« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Næstu atburðir
Vefumsjón