A A A

Snjóflóð úr Geitárhorni á Tálknafirði 10. mars

Ljósmynd: Ásgeir Jónsson
Ljósmynd: Ásgeir Jónsson

Snjóflóðið sem féll úr Geitárhorni í fyrrakvöld hefur verið í fréttum að undanförnu. Umrætt flóð sem sem féll er nokkuð stórt miðað við það sem komið hefur úr Geitárhorni áður. Þó var stærð þess ekki það mikil að einhver hætta gæti skapast.
 

Neðangreind frétt er tekin af veður.is  
    

Snjóflóð féll í gærkvöld úr Geitárhorni á Tálknafirði. Það náði niður að skógrækt. Seinnipartinn í gær var mjög slæmt veður á svæðinu með snjókomu og skafrenningi. Ofankoman stóð þó fremur stutt yfir og ekki mældist mikil úrkoma á Tálknafirði, eða 4 mm. Við tók hvöss suðlæg átt með skafrenningi til fjalla.
 

Snjóflóðavakt Veðurstofunnar fylgdist grannt með þróun mála og veðrinu í gær. Ekki var gefið út óvissustig fyrir sunnanverða Vestfirði sökum þess hversu stutt var búist við að versta veðrið stæði, og sunnanátt er talin hreinsa úr þeim fjöllum sem helst þarf að fylgjast með ofan við byggð, þar á meðal Geitárhorninu á Tálknafirði og fjallinu ofan Patreksfjarðar. Einnig var eldri snjór talinn orðinn nokkuð stöðugur samkvæmt niðurstöðum prófana. Óvissustigi er lýst yfir ef staðan er metin þannig að hætta geti skapast í byggð ef veðurspá gengur eftir. Óvissustigi er ekki lýst yfir þótt búist sé við flóðum sem geti náð niður á vegi eða minni flóðum ofan byggðar.
 

Flóðið úr Geitárhorni er talið hafa fallið í nýja snjónum sem safnaðist í fjallið í gær. Það hefur líklega fallið um það bil sem úrkoman hætti í gærkvöldi, hugsanlega þegar hlýnaði aðeins, en þekkt er að hlýnun getur komið flóðum af stað þótt hiti fari ekki yfir frostmark í upptökum. Flóðið fór óvenjulangt á þessum stað sem kom heldur á óvart miðað við aðstæður en það stöðvaðist þó vel ofan byggðar og ógnaði henni ekki. Það var blautt þar sem það kom niður og hefur líklega farið frekar hægt yfir.
 

Sveitarstjóri

« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Næstu atburðir
Vefumsjón