A A A

Sýning um franska landkönnuðinn Yves-Joseph de Kerguelen – Tremarec

Fimmtudaginn 3. júlí kl. 16 verður opnuð í Safnaðarheimilinu á Patreksfirði sýning um franska landkönnuðinn Yves-Joseph de Kerguelen – Tremarec. Á sýningunni er rakin saga fyrsta vísindaleiðangurs Frakka til Íslands. Sá leiðangur er talinn marka upphaf vináttu Frakka og Íslendinga. Sýningin rekur ferðir Yves-Joseph de Kerguelen til Íslands 1767 og 1768. Franski sendiherrann, Marc Boutillier opnar sýninguna og býður upp á léttar veitingar. Eru allir velkomnir að vera við sýningaropnunina.
 

Árið 1767 fékk hinn þrítugi Yves-Joseph de Kerguelen fyrirmæli frá Loðvíki konungi XV um að sigla til Íslands til að aðstoða fiskimenn frá Norður-Frakklandi, sem þar stunduðu veiðar. Fyrstu ferð sína fór hann á freigátunni „La Folle“ en seinna sneri hann svo til Íslands á korvettunni „L‘ Hirondelle“.
 

Bók hans Relation d‘un voyage dans la Mer du Nord kom út árið 1771. Þar greindi hann frá rannsóknum sínum og uppgötvunum í þessum tveimur Íslandsferðum, en um leið frá ýmsu öðru eins og samskiptum sínum á latínu við forsvarsmann dönsku verslunarinnar á Patreksfirði og einnig við hinn íslenska fræðimann og skáld, Eggert Ólafsson. Skýrslur Kerguelens höfðu bæði hernaðarlega og vísindalega þýðingu. Auk þess að fela í sér nákvæmar upplýsingar um sjóferðirnar þá birtust þar greinargóðar upplýsingar um náttúrufar, dýralíf, jurtaríki, loftslag og landafræði, um leið og greint var frá ýmsum siðum og háttum Íslendinga á þessum tíma. Kerguelen gaf þannig mörgum löndum sínum og erlendum lesendum tækifæri til að kynnast hinum margvíslegu töfrum og sérkennum Íslands.
 
Sýningin er samstarfsverkefni Landsbókasafns Íslands - Háskólabókasafns við franska sendiráðið á Íslandi. Sýningin var í Þjóðarbókhlöðu til 30. júní. Eftir það er hún á Patreksfirði 4. -22. júlí og loks á Fáskrúðsfirði 26. júlí til 18. ágúst.

« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Næstu atburðir
Vefumsjón