Djúp lægð nálgast nú landið og því er má búast við þessari óvenju miklu ölduhæð. Gert er ráð fyrir að hún verði allt að 8 til 10 metrar vestur af landinu og allt að 14 metrar á vesturdjúpi undir lok vikunnar.
„Landhelgisgæslan telur ástæðu til að upplýsa sjófarendur um þessar krefjandi aðstæður og hvetur þá til að fylgjast vel með ölduspá, eftir því sem kostur er, en hana má finna á vef Veðurstofunnar,“ segir á Facebook-síðu Landhelgisgæslunnar.
Næstu daga er spáð umhleypingasömu veðri og geta veðrabrigði orðið ansi snörp, að því er fram kemur í athugasemdum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar. Því sé mikilvægt að fylgjast vel með veðurspám og viðvörunum, sérstaklega ef fólk hyggur á ferðalög á milli landshluta eða framkvæmdir.