Vinnudagur starfshópa og ný vefsíða
Vinnudagur starfshópa um sameiningarviðræður Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps var haldinn í Flókalundi síðastliðinn föstudag. Í lok dagsins var opnuð ný vefsíða þar sem nálgast má allar helstu upplýsingar um sameiningarviðræðurnar.
Í febrúar samþykktu sveitastjórnir Tálknafjarðarhrepps og Vesturbyggðar að hefja formlegar viðræður um sameiningu sveitarfélaganna og í kjölfarið var skipuð samstarfsnefnd um sameiningu. Nefndin skipaði í sjö starfshópa um tilgreinda málaflokka er varða sameininguna. Vinnufundur starfshópanna var haldinn í Flókalundi síðasta föstudag.
Hlutverk starfshópanna er að meta stöðu sveitarfélaganna í viðkomandi málaflokki og greina styrkleika, veikleika, ógnanir og tækifæri ásamt því að móta fyrstu drög að framtíðarsýn fyrir viðkomandi málaflokk. Yfir 40 þátttakendur mættu til leiks og það sem einkenndi vinnu dagsins var metnaður fyrir hönd svæðisins, uppbyggileg gagnrýni og mikil gleði.
Starfshóparnir munu nú vinna áfram við gerð minnisblaðs sem skilað verður til samstarfsnefndar fyrir 20. maí næstkomandi. Í framhaldinu verða haldnir íbúafundir þar sem íbúum gefst tækifæri á að fara yfir fyrstu drög ásamt því að koma að sínum hugmyndum og áhersluatriðum. Þannig geta íbúar haft bein áhrif á sameiningaviðræðurnar. Það er síðan ekki fyrr en eftir íbúafundina er samstarfsnefndin mun skila áliti til sveitarstjórna um sameiningarviðræðurnar en það álit verður meðal annars byggt á vinnu starfshópanna og skoðunum íbúa frá íbúafundunum.
Í lok vinnudagsins var opnuð ný vefsíða, Vestfirdingar.is, þar sem nálgast má allar helstu upplýsingar um sameiningarviðræðurnar. Inn á hana munu koma fréttir um framgang viðræðna, myndir frá undirbúningsvinnu auk annarra gagna sem lögð verða fram í undirbúningsferlinu.