A A A

Ályktun sveitarstjórnar vegna skýrslu Ríkisendurskoðunar um sjóakvíaeldi

Á fundi sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps þriðjudaginn 14. febrúar 2023 var eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða:

 

Skýrsla Ríkisendurskoðunar um stjórnsýslu í fiskeldi kemur sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps ekki á óvart þar sem ítrekað hefur verið bent á skort á eftirliti og rannsóknum með fiskeldi þau tólf ár sem fiskeldi hefur verið starfrækt í Tálknafirði. Skorað er á stjórnvöld að tryggja að fjármagn renni í þessa málaflokka til að hægt sé að bæta úr þeim vanköntum sem fram koma í skýrslunni. Jafnframt hafa sveitarfélögin á sunnanverðum Vestfjörðum bent á nauðsyn þess að störf í eftirliti með fiskeldi og rannsóknum í greininni séu staðsett þar sem greinin er í öflugum rekstri. Sveitarfélögin hafa boðið fram húsnæði og aðstöðu á sunnanverðum Vestfjörðum til að svo geti orðið.

 

Mikil tækifæri eru í fiskeldi og greinin hefur stuðlað að uppbyggingu á Vestfjörðum eftir langt hnignunartímabil. Til að sú uppbygging haldi áfram og skili sem mestum verðmætum til samfélaganna á Vestfjörðum er nauðsynlegt að fjármagn renni einnig til þeirra sveitarfélaga þar sem mest þörf er á uppbyggingu í tengslum við fiskeldið þannig að hægt sé að styrkja samfélögin og þar með þróun greinarinnar í sátt við samfélag og náttúru.
 

Ályktun sveitarstjórnar vegna Breiðafjarðarferjunnar Baldurs

Á fundi sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps þriðjudaginn 14. febrúar 2023 var eftirfarandi bókun samþykkt samhljóða:

 

Í morgun var tilkynnt að ferjan Baldur muni ekki sigla í dag þriðjudag, á morgun og á fimmtudaginn vegna bilana í vél ferjunnar. Enn einu sinni eru samgöngur og vöruflutningar til og frá sunnanverðum Vestfjörðum í uppnámi vegna þessa og slíkt ástand er með öllu óþolandi.

 

Mikið magn af laxi og laxaafurðum fer frá sunnanverðum Vestfjörðum þessa dagana ásamt öðrum fiskafurðum auk annarra flutninga. Vegir í austanverðri sýslunni þola engan veginn þessa miklu þungaflutninga og ljóst að þeir munu láta verulega á sjá þegar ekki er hægt að nýta Baldur til að létta álagi af þessum vegum.

 

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps og bæjarstjórn Vesturbyggðar hafa ítrekað lýst óánægju sinni með þessa ferju og kallað eftir að fengið verði skip með tvær aðalvélar og í betra ástandi en núverandi ferja. Sú vinna hefur verið sögð í gangi en enn bólar ekkert á annarri ferju.

 

Skorað er á yfirvöld vegamála að hraða þeirri vinnu sem þarf til að hægt sé að fá skip sem treysta má betur til að sinna þessum flutningum til að létta álagi af þungaflutningum á lélega vegi út af Vestfjarðakjálkanum.

 

Tálknafjarðarskóli auglýsir lausa stöðu leikskólakennara

 Skólinn er samrekinn leik-, grunn- og tónlistarskóli undir einu þaki. Í skólanum eru um 50 nemendur. Í skólanum fer fram öflugt og framsækið skólastarf þar sem lögð er áhersla á að koma til móts við hvern og einn nemanda. Skólinn er öflugur grænfánaskóli, heilsueflandi skóli og UNESCO skóli. 

 Tálknafjörður er afar fallegur fjörður sem þekktur er fyrir einstaka veðurblíðu. Íbúarnir eru miklir íþróttaálfar og státar þorpið af glæsilegri íþróttamiðstöð með tækjasal, 25m sundlaug og fjöldann allan af skipulögðum íþróttatímum. Atvinnulíf er með miklum blóma og uppbygging fiskeldis og ferðaþjónustu á svæðinu býður upp á mikil tækifæri.
 

Tálknafjarðarskóli leitar að metnaðarfullum, sjálfstæðum og drífandi starfsmönnum með mikla þekkingu og áhuga á skólastarfi. Í Tálknafjarðarskóla eru laus til umsóknar eftirfarandi staða:

 

Leikskólastig:

Staða leikskólakennara (100% starfshlutfall)
 

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Kennaramenntun og réttindi til kennslu í leikskóla

  • Reynsla af kennslu á leikskólastigi

  • Góð íslenskukunnátta

  • Færni í að vinna í teymum og að fjölbreyttum verkefnum

  • Faglegur metnaður og ánægja af starfi með börnum

  • Frumkvæði og skipulögð vinnubrögð

  • Jákvæðni gagnvart skólaþróun

  • Góð hæfni í mannlegum samskiptum

Umsækjendur mega hvorki hafa hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga (kynferðisbrot), nr. 19/1940 frá því að hann var sakhæfur (15 ára) né hafa hlotið refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum. Rétt er að vekja athygli á því að við ráðningu er heimilt að sækja upplýsingar úr sakaskrá.
 

Umsókn um starf skal fylgja skrá yfir menntun og starfsferil og afrit af leyfisbréfi ef við á, kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar með rökstuðningi fyrir hæfni viðkomandi í starfið og upplýsingar um umsagnaraðila.
 

Umsókn sendist á skolastjori@talknafjordur.is. Öllum umsóknum verður svarað. Umsóknir gilda í sex mánuði frá því að umsóknarfrestur rennur út.
 

Fólk af öllum kynjum er hvatt til að sækja um. Fáist ekki menntaður kennara í stöðu sem auglýst er, er heimilt að ráða annan í stöðuna og ræður hæfni umsækjanda þar um. Önnur uppeldismenntun og/eða reynsla er þá metin.
 

Óskað er eftir að viðkomandi geti hafið störf sem fyrst.
 

Nánari upplýsingar um starfið veitir Birna Friðbjört S. Hannesdóttir, skólastjóri, í síma 456-2537, netfang: skolastjori@talknafjordur.is
 

Umsóknarfrestur er til og með 01.03 2023
 

Opnað hefur verið fyrir umferð um Strandgötuna

Opnað hefur verið fyrir umferð um Strandgötuna að nýju. Fólk er beðið um að fara varlega þegar það fer um, sérstaklega við Tunguána þar sem skemmdir eru á yfirborði vegar og vatn rennur enn yfir götuna. Nú á þriðjudagsmorgni er unnið að hreinsun og uppsetningu merkinga. Björgunarsveitin Tálkni verður með vakt við svæðið á meðan þörf er á. Vegfarendur eru beðnir um að taka tillit til þess fólks sem er að störfum á vettvangi.

Strandgata lokuð við Tunguá

Vegna mikilla vatnavaxta hafa orðið vegaskemmdir á Strandgötu við Tunguá. Gatan er því lokuð fyrir allri umferð meðan ekki er ljóst hversu miklar skemmdir hafa orðið á götunni. Tálknfirðingar eru beðnir að vera sem minnst á ferðinni til að trufla ekki störf viðbragðsaðila sem eru að vinna í að veita vatni burt. Sama á við um hafnarsvæðið en þar er slökkvilið að dæla vatni frá húsum. 

Tilkynning verður send út um leið og ástandið skýrist betur.

Sveitarstjórnarfundur

Boðað er til 607. fundar sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps sem fer fram á skrifstofu sveitarfélagsins að Strandgötu 38, þriðjudaginn 14. febrúar 2023 og hefst kl. 17:00.

Sjá fundarboð hér (.pdf)

Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri

Eldri færslur
« Mars »
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          
Næstu atburðir
Vefumsjón