A A A

Álagning fasteignagjalda 2024

Álagning fasteignagjalda 2024 liggur fyrir í Táknafjarðarhreppi.

 

Gjalddagar fasteignagjalda eru ellefu, frá 1. febrúar til 1. desember 2024. Eindagi er 30 dögum eftir gjalddaga. Dráttarvextir reiknast frá gjalddaga ef ekki er greitt fyrir eindaga. Ef gjöld eru samtals lægri en kr. 25.000.- er um einn gjalddaga að ræða og er hann 15. febrúar. Ef álagning er kr. 500.- eða lægri verður krafan ekki innheimt.

 

Vinsamlega athugið að ekki verða sendir út greiðsluseðlar nema þess sé sérstaklega óskað. Greiðsluseðlar munu birtast í heimabanka. Engin breyting verður hjá þeim sem pöntuðu seðla í fyrra. Hægt er að panta og afpanta seðla og álagningarseðla með því að hringja í síma 450-2500 á opnunartíma skrifstofu og/eða senda tölvupóst á talknafjordur@talknafjordur.is.

 

Veittur verður afsláttur af fasteignaskatti til þeirra elli- og örorkulífeyrisþega, sem eiga lögheimili í Tálknafirði og eru þinglýstir eigendur viðkomandi fasteignar og/eða geti átt rétt á vaxtabótum vegna hennar skv. B-lið 68.gr.laga nr. 90/2003 um tekju og eignaskatt. Einungis er veittur afsláttur vegna íbúðarhúsnæðis til eigin nota. Miðast afslátturinn við samþykkt tekjumörk liðins árs . Við álagningu fasteignagjalda er afslátturinn reiknaður út frá álagningu 2023 vegna skatttekna 2022. Vinsamlega athugið að afslátturinn verður endurreiknaður þegar skattframtal 2024 vegna skatttekna 2023 liggur fyrir. Nánari upplýsingar um skiptingu fasteignagjalda og viðmiðunartekjur má sjá í gjaldskrá fasteignagjalda.

 

Gjöld vegna hirðu og meðhöndlunar úrgangs eru innheimt með fasteignagjöldum og eru í samræmi við samþykkta gjaldskrá vegna meðhöndlunar úrgangs í Tálknafjarðarhreppi.

 

Álagningarseðlar fasteignagjalda fyrir árið 2024 verða ekki sendir út en verða aðgengilegir á island.is undir flipanum „Mínar síður“. Fyrirspurnir og/eða athugasemdir skal senda á talknafjordur@talknafjordur.is.

Fundarboð 628. fundar sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps

Boðað er til 628. fundar sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps sem fer fram á skrifstofu sveitarfélagsins að Strandgötu 38, þriðjudaginn 23. janúar 2024 og hefst kl. 17:00.

 

Sjá fundarboð hér (.pdf).

Kveðjur til Grindvíkinga

Ljósmynd: Árni Sæberg / Landhelgisgæsla Íslands
Ljósmynd: Árni Sæberg / Landhelgisgæsla Íslands

Fyrir hönd Tálknafjarðarhrepps og allra Tálknfirðinga sendi ég hlýjar kveðjur til Grindvíkinga í þeim hamförum sem nú ganga yfir, sem og til allra þeirra viðbragðsaðila sem vinna óeigingjarnt og ómetanlegt starf við lífshættulegar aðstæður.

 

Það er erfitt að finna orð sem ná að fullu lýsa þeirri hryggð og þeirri samkennd sem við öll finnum fyrir þegar við horfum upp á Grindvíkinga standa varnarlausa gagnvart miskunnarlausum ofurkröftum náttúrunnar og þeirri eyðileggingu sem þeir valda. Vonandi veitir það styrk og huggun að finna að um allt land stöndum við með þeim á þessum erfiðu tímum.

 

Ólafur Þór Ólafsson

sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps

Bilun í kerfi Mílu á Tálknafirði

Vegna bilunar sem varð á dreifikerfi Mílu í dag þegar götuskápur við Lækjargötu eyðilaggðist er stór hluti þéttbýlisins á Tálknafirði án sambands við netið. Viðgerð er hafin og mun standa fram á nótt. Gert er ráð fyrir að hús muni endurheimta samband eitt af öðru þegar líður á kvöldið og nóttina. Bent er á að fylgjast með tilkynningum sem birtast á heimasíðu Mílu.

 

Uppfært:

Bráðabirgðaviðgerð er lokið og öll hús ættu að vera aftur orðin tengd netinu.

Íslenskur ungmennafulltrúi á Sveitarstjórnarþingi Evrópuráðsins 2024

Sveitarstjórnarþing Evrópuráðsins stendur vörð um lýðræði og mannréttindi í sveitarfélögum og svæðum í aðilarríkjum ráðsins. Þingið kemur saman tvisvar á ári í Evrópuráðshöllinni í Strasbourg, Frakklandi. Þingfulltrúar eru kjörnir fulltrúar á sveitarstjórnarstigi. Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefnir þrjá fulltrúa Íslands.

 

Ungmennafulltrúar, einn frá hverju aðildarríki, hafa síðustu 10 árin tekið þátt í þingum og eru nú orðnir ómissandi hluti af starfsemi þingsins. Nú er auglýst eftir umsóknum vegna 2024. Umsækjendur þurfa að vera á aldrinum 18-30 ára. Ísland hefur öll árin átt ungmennafulltrúa á þinginu þar til í fyrra þegar engar umsóknir bárust. Þess vegna eru sveitarfélög sérstaklega hvött til þess núna að miðla upplýsingum um þetta tækifæri innan sinna sveitarfélaga, ekki síst til fólks á þessum aldri sem á sæti í sveitarstjórnum eða nefndum og til fulltrúa í ungmennaráðum sveitarfélaga.

 

Ávinningurinn af því að taka þátt er þjálfun í að taka þátt í erlendu samstarfi, innsýn í starfsemi þingsins og Evrópuráðsins sem og tengslamyndun og samstarf við ungmennafulltrúa frá öðrum aðildarríkjum Evrópuráðsins. Þingið greiðir ferða- og uppihaldskostnað. Nánari upplýsingar má sjá hér og umsóknir þurfa að berast á þessu formi í síðasta lagi 7. janúar 2024.

Breytingar gjöldum vegna meðhöndlunar úrgangs hjá Tálknafjarðarhreppi

Sveitarstjórn  Tálknafjarðarhrepps hefur samþykkt breytingar á Samþykkt um meðhöndlun úrgangs þar sem íbúum er gefinn kostur á að sækja um nokkrar breytingar á tunnum við hús sín.

 

Helstu breytingarnar eru að hægt er að sækja um sameiginleg sorpgjöld fyrir fjölbýli og parhús auk þess sem eigendur að samliggjandi eignum geta sótt um að hafa sameiginlegar sorptunnur með undirritun samnings um slíka samnýtingu og greiða sameiginlega fyrir ílátin.

 

Einnig er hægt að sækja um að fá minni tunnu, 120 lítra tunnu í stað 240 lítra tunnu fyrir almennt sorp og aukatunnu fyrir endurvinnslu með 20 % afslætti auk þess sem íbúar með heimajarðgerð geta sótt um að fá niðurfelld gjöld af tunnu fyrir lífrænt sorp gegn því að sýna fram á aðstöðu til heimajarðgerðar.

 

Allar umsóknir um þessar breytingar þurfa að berast skrifstofu Tálknafjarðarhrepps í síðasta lagi 22. janúar 2024 á netfangið hringras@talknafjordur.is eða talknafjordur@talknafjordur.is áður en vinna við álagningu fasteignagjalda hefst. Berist umsóknir eftir þann tíma verður innheimt breytingargjald kr. 4.025 af viðkomandi fasteign.

 

Allar fyrirspurnir um sorpmál, tilhögun þeirra, kvartanir og ábendingar skulu berast á netfangið hringras@talknafjordur.is

 

Gjaldskskrá vegna meðhöndlunar úrgangs í Tálknafjarðarhreppi 2024 má sjá hér.

Eldri færslur
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        
Næstu atburðir
Vefumsjón