A A A

Lýðheilsu­göngur Ferða­fé­lags Íslands í sept­ember

September er lýðheilsugöngumánuður Ferðafélags Íslands líkt og undanfarin ár en gengið verður alla miðvikudaga í september. Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur lætur ekki sitt eftir liggja og býður upp á glæsilega dagskrá. Allir eiga að finna göngu við sitt hæfi og eru íbúar einatt hvattir til að tengjast fólki, náttúru og sínu innra sjálfi með þátttöku sinni.
 

Tilgangur lýðheilsuganganna er að hvetja almenning til útivistar og hreyfingar í góðum félagsskap og efla þar með heilsu og lífsgæði. Ferðafélag Íslands mun halda utan um alla dagskrá um allt land á heimasíðu sinni og inni á Fésbókinni.
 

4. september – Gengið verður að Stöpum í Tálknafirði. Gengið verður í fylgd með UMFT og ætti gangan að taka um 90 mínútur. Lagt verður af stað frá Sellátrum klukkan 18:00.
 

11. september – Gengið verður upp á Brellur í Patreksfirði. Gengið verður í fylgd Margrétar Brynjólfsdóttur og ætti gangan að taka um 120 mínútur. Lagt verður af stað efst úr Sigtúni klukkan 18:00.
 

18. september – Smalaganga með Ásgeiri bónda á Innri-Múla. Fé verður rekið úr Hagafitinni þennan dag og ætti að taka um 120 mínútur. Lagt verður af stað frá Innri-Múla klukkan 17:00.
 

25. september – Gengið verður upp að Hnjúksvatni í Bíldudal. Gengið verður í fylgd Iðu Marsibil Jónsdóttur og ætti gangan að taka um 90 mínútur. Lagt verður af stað frá gömlu rafstöðinni í botni Bíldudals klukkan 18:00.
 

Íþrótta- og tómstundafulltrúi
Páll Vilhjálmsson

Lýðheilsugöngur sunnanverðir vestfirðir (.pdf)

Skólasetning og fyrstu dagar skólaársins

Leikskólastarf Tálknafjarðarskóla hófst mánudaginn 19. ágúst og skólasetning grunnskólahluta fór fram í húsnæði skólans þriðjudaginn 20. ágúst. Vel var mætt af bæði nemendum og foreldrum. Í ár eru 9 nemendur í leikskólanum og 38 nemendur í grunnskólanum eða samtals 47 nemendur. Allir nemendur og starfsfólk skólans fengu vinaarmband að gjöf frá skólastjóra sem tákn um nýja og spennandi tíma framundan sem einkennast af vinsemd og samvinnu.
 

Starfsfólk skólans telur 14 manns og eru eftirfarandi:
Ágústa Ósk Aronsdóttir – umsjónarkennari unglingastigs * nýr leiðbeinandi við skólann
Birgitta Guðmundsdóttir – umsjónarkennari yngsta stigs * nýr leiðbeinandi við skólann
Birna Friðbjört S. Hannesdóttir – skólastjóri og umsjónarkennari unglingastigs
Guðlaug A. Björgvinsdóttir – stuðningsfulltrúi og stundakennari
Jenný Lára Magnadóttir – matráður
Karol Damian Swidzinski – ræstitæknir
Kristín Brynja Gunnarsdóttir – Íþróttakennari
Lára Eyjólfsdóttir – umsjónarmaður sérkennslu, stuðningsfulltrúi og stundakennari
Marion Worthmann – tónlistarkennari
Rúna Sif Rafnsdóttir – umsjónarmaður lengdrar viðveru
Sandra Lind Bjarnadóttir – leiðbeinandi í leikskóla
Solveig Björk Bjarnadóttir – umsjónarkennari miðstigs
Sveinn Jóhann Þórðarson – stundakennari * nýr leiðbeinandi við skólann
Svanhildur Rós Guðmundsdóttir – leikskólakennari og stundakennari
 

Skóladagatal skólans er komið á heimasíðu skólans og má finna hér. Í ár er eitt sameinað skóladagatal fyrir allan skólann og lagt var upp með að það yrði vel upplýsandi.
 

Skólinn mun bjóða upp á lengda viðveru eftir skóla fyrir nemendur í 1. -4. bekk frá því þau ljúka skóladegi til klukkan 16.00. Rúna Sif Rafnsdóttir mun hafa umsjón með lengdri viðveru. Íþróttaskóli hefst síðan 2. september.
 

Nokkrar nýjungar eru í skólanum t.a.m. er boðið uppá jóga með Láru í byrjun skóladags þar sem allir nemendur koma saman og taka stuttar jógaæfingar til að undirbúa sig fyrir skóladaginn. Virkilega skemmtileg og hressandi nýjung. Lögð verður sérstök áhersla á samþættingu námsgreina og unnið með heildstæð verkefni þvert á námsgreinar. Slík áhersla tengist markmiðum aðalnámskrár grunnskóla um “að gera námið merkingarbærara fyrir nemendur, skýra fyrir þeim samhengi fræðigreina og nauðsyn þess að hafa innsýn í heim þeirra”. Einnig hefur verið tekið upp 60 mínútna kennslustundir í stað 40 mínútna.
 

Með bestu kveðjum

Birna Friðbjört S. Hannesdóttir

Skólastjóri

 

Skóladagatal: http://talknafjardarskoli.is/?page_id=63

Leikskólareglur: http://talknafjardarskoli.is/?page_id=1576



Mikið tjón í Íþróttamiðstöð Tálknafjarðar

Margar hendur
Margar hendur
1 af 7

Það var heldur óskemmtileg aðkoma starfsfólks íþróttamiðstöðvar Tálknafjarðar í morgun þegar í ljós kom að lagnakjallarinn var fullur af vatni og öllu rafmagni slegið út. Bjarnveig Guðbrandsdóttir forstöðukona íþróttmiðstöðvar sendi þegar í stað út neyðarkall og innan tíðar var sundlaugargarðurinn fullur af slökkviliðsmönnum, dælum og slöngum og dæling hafin upp úr kjallaranum og allir pottar og sundlaug tæmd. Að öllum líkindum hefur heitavatnslögn farið í sundur og vatnið runnið gegnum lagnarými útipotta inn í kjallara hússins.
 

Tjónið er gríðarlegt og mun fulltrúi tryggingarfélags sveitarfélagsins líta á aðstæður á morgun.
 

Því miður má reikna með að íþróttamiðstöðin verði lokuð í nokkurn tíma því ekkert heitt vatn er á húsinu og rafmagn óstöðugt. En Pollurinn er á sínum stað og lengi tekur sjórinn við.
 

Slökkvilið Tálknafjarðar og Vesturbyggðar stóðu sig afbragðsvel, brugðust skjótt við og kunnu sitt fag, þeim eru hér með færðar kærar þakkir fyrir hjálpina.
 

Bryndís Sigurðardóttir

sveitarstjóri

Skólasetning

Skólasetning grunnskólahluta Tálknafjarðarskóla 2019 verður haldin hátíðleg þriðjudaginn 20. ágúst kl. 13:00 í skólanum. Að setningu lokinni fara nemendur með umsjónarkennurum sínum í skólastofurnar. Við hvetjum alla foreldra til að fylgja börnum sínum.
 

Kennsla hefst síðan samkvæmt stundaskrá miðvikudaginn 21. ágúst.
 

Leikskólastarf Tálknafjarðarskóla hefst mánudaginn 19. ágúst.
 

Kærar kveðjur
Starfsfólk Tálknafjarðarskóla

Fjallskila­seðill og réttir 2019

Vesturbyggð og Tálknafjarðahreppur hafa nú gefið út fjallskilaseðil fyrir árið 2019 og er hann birtur hér.

Fjallskil fara fram samkvæmt fjallskilasamþykkt fyrir Barðastrandar- og Ísafjarðarsýslur nr. 716/2012, sem auglýst er í B- deild Stjórnartíðinda.


 

Fjallskilanefnd skorar á alla land- og fjáreigendur að láta sinn hlut ekki eftir liggja og leggja fram menn í leitir skv. beiðni leitarstjóra. Vanræksla eins bitnar á öðrum og gerir allt skipulag erfitt í framkvæmd.

Tilgangurinn er að reyna að létta okkur smölunina með því að sem flestir geti unnið saman og sem skemmstur tími líði milli smölunar á samliggjandi svæðum. Árangurinn ætti að verða betri heimtur.

Hlutverk leitarstjóra er að sjá til þess að leitir séu mannaðar. Dagssetningar á seðlinum eru byggðar á reynslu fyrri ára.

Athugasemdum við fjallskilaseðil skal beina til formanns fjallskilanefndar og skulu þær berast fyrir 1. september 2019.

Fjallskilaseðill 2019 (.pdf)
Fjallskilasamþykkt
Lög um afréttarmálefni, fjallskil o.fl.

Endurskoðun aðalskipulags Tálknafjarðarhrepps 2019-2031

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps hefur hafið vinnu við endurskoðun aðalskipulags sveitarfélagsins. Haldinn var kynningarfundur um verkefnið 4. apríl 2019 þar sem íbúum var gefinn kostur á að koma hugmyndum sínum á framfæri.
 

Nú er kynnt lýsing skipulagsverkefnisins þar sem gerð er grein fyrir helstu viðfangsefnum aðalskipulagsins, áherslum sveitarstjórnar auk upplýsinga um fyrirhugað skipulagsferli. Gert er ráð fyrir að vinna við aðalskipulagið verði í gangi fram eftir árinu 2021 og munu gefast nokkur tækifæri til að koma upplýsingum og sjónarmiðum á framfæri.
 

Íbúum og hagsmunaaðilum er gefinn kostur á því að leggja fram sjónarmið og ábendingar við skipulagslýsinguna og skal þeim skilað skriflega á skrifstofu sveitarfélagsins , Strandgötu 38, 460 Tálknafirði eða á netfangið talknafjordur@talknafjordur.is  fyrir 13. september nk.

Skipulagslýsing (.pdf)

Eldri færslur
« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Næstu atburðir
Vefumsjón