Húsið - House of Creativity
Hjónin Aron Ingi Guðmundsson og Julie Gasiglia opnuðu síðastliðinn föstudag HÚSIÐ - House of Creativity í Gömlu Verbúðinni á Eyrargötu á Patreksfirði. Starfsemi Hússins hefur frá því það opnaði síðasta sumar verið í Merkisteini, Aðalstræti 72 á Patreksfirði en flyst nú í stærra og hentugra húsnæði. Í HÚSINU í Gömlu Verbúðinni verða listasýningar, ljósmyndasýningar, tónleikar, handverksverslun og skrifstofurými til útleigu.
Fyrsta sýningin hjá þeim nefnist „Kraftur Jurta“ og er lokaverkefni Dagrúnar Írisar í grafískri hönnun frá Myndlistarskólanum á Akureyri. Dagrún Íris myndskreytti og endurgerði á nútímalegan hátt gamalt rit frá árinu 1880 er ber nafnið “Lítil Ritgjörð um nytsemi nokkurra íslenzkra jurta eptir ýmsa höfunda” og er safnað saman af Jóni Jónssyni garðyrjumanni. Ritið fjallar um lækningamátt og vinnslu nokkura jurta sem finnast í íslenskri náttúru.
Það verður margt á dagskrá í HÚSINU-Gömlu Verbúðinni á þessu ári en þau hjón fengu styrk frá Uppbyggingarsjóði Vestfjarða til að setja upp fjölbreytta menningardagskrá fyrir árið 2018. Hægt er að fræðast meira um starfsemina hjá þeim á heimasíðu Hússins: www.husid-workshop.com og svo er hægt að finna HÚSIÐ á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram undir Húsið-House of Creativity.