A A A

Tillaga að breytingu á starfsleyfi Arnarlax í Patreks- og Tálknafirði

Umhverfisstofnun hefur unnið tillög að breytingu á starfsleyfi Arnarlax ehf. í Patreks- og Tálknafirði.
 

Breytingin felur í sér breytingu á eldiðssvæðum ásamt breytingu á hvíldartíma. Tillagan gerir ráð fyrir að svæðið Hlaðseyri verði lagt af og nýtt svæði komi inn sem kallast Vatneyri. Tillagan gerir einnig ráð fyrir að hvíldartími breytist úr 6 mánuðum í 90 daga.
 

Skipulagsstofnun birti ákvörðun um matsskyldu vegna breytingarinnar þann 8. nóvember 2021 þar sem niðurstaðan var að breytingarnar þyrftu ekki í mat. Niðurstaðan var að með hliðsjón af eðli þeirra breytinga sem fyrirhugaðar eru frá núgildandi leyfum og að teknu tilliti til fyrirliggjandi gagna, þ.m.t. þeirra umsagna sem bárust, telur Skipulagsstofnun ólíklegt að breyting á hvíldartíma og staðsetningu eldissvæða komi til með að að auka hættu á slysasleppingum eða auka álag á villta laxfiska vegna laxalúsar eða sjúkdóma miðað við það sem gert var ráð fyrir í matsferli en Skipulagsstofnun leggur áherslu á áframhaldandi vöktun laxfiska í Patrekfirði. Þá telur stofnunin að áhrif á aðra umhverfisþætti, s.s. siglingar, fugla og ásýnd, verði minniháttar en lögð er áhersla á skýrar merkingar eldiskvía og að í starfsleyfi verði kveðið á um vöktun á fuglalífi á eldissvæðinu við Vatneyri. Við færslu og stækkun á eldissvæðum munu áhrif á landslag og ásýnd færast til en verða sambærileg því sem áður var.
 

Umhverfisstofnun tekur undir álit Skipulagsstofnunar og bendir á að í tillögu að starfsleyfi stofnunarinnar fyrir starfseminni eru ákvæði þess efnis að stofnunin geti einhliða frestað útsetningu seiða, bendi niðurstöður vöktunar til þess að umhverfisaðstæður séu óhagstæðar á eldissvæði og það þarfnist frekari hvíldar. Gerð er krafa um vöktun svæða í starfsleyfi sem útfærð eru í vöktunaráætlun rekstaraðila sem fylgir auglýsingu.
 

Athugasemdir við starfsleyfistillöguna skulu vera skriflegar og sendar Umhverfisstofnun (ust@ust.is) merkt UST202105-075. Frestur til að skila inn athugasemdum er til og með 19. maí 2022. Greinargerð mun fylgja starfsleyfi við útgáfu sbr. 6. gr. reglugerðar nr. 550/2018.

Tengd skjöl

Tálknafjarðarskóli auglýsir lausar stöður við skólann

Skólinn er samrekinn leik-, grunn- og tónlistarskóli undir einu þaki. Í skólanum eru um 50 nemendur. Í skólanum fer fram öflugt og framsækið skólastarf þar sem lögð er áhersla á að koma til móts við hvern og einn nemanda. Skólinn er öflugur grænfánaskóli, heilsueflandi skóli og UNESCO skóli. 
 

Tálknafjörður er afar fallegur fjörður sem þekktur er fyrir einstaka veðurblíðu. Íbúarnir eru miklir íþróttaálfar og státar þorpið af glæsilegri íþróttamiðstöð með tækjasal, 25m sundlaug og fjöldann allan af skipulögðum íþróttatímum. Atvinnulíf er með miklum blóma og uppbygging fiskeldis og ferðaþjónustu á svæðinu býður upp á mikil tækifæri.
 

Tálknafjarðarskóli leitar að metnaðarfullum, sjálfstæðum og drífandi starfsmönnum með mikla þekkingu og áhuga á skólastarfi. Í Tálknafjarðarskóla eru lausar til umsóknar eftirfarandi stöður:

Leikskólastig:

  Tvær stöður leikskólakennara (100% starfshlutfall)
 

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Kennaramenntun og réttindi til kennslu í leikskóla

  • Reynsla af kennslu á leikskólastigi

  • Góð íslenskukunnátta

  • Færni í að vinna í teymum og að fjölbreyttum verkefnum

  • Faglegur metnaður og ánægja af starfi með börnum

  • Frumkvæði og skipulögð vinnubrögð

  • Jákvæðni gagnvart skólaþróun

  • Góð hæfni í mannlegum samskiptum

Grunnskólastig:

  Afleysingarstaða umsjónarkennara á mið- og elsta stigi grunnskóla til eins árs (100% starfshlutfall)

  Kennari í list-og verkgreinum grunnskóla (50-100% starfshlutfall)

  Stundakennari í stærðfræði/raungreinum/náttúrugreinum
 

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Kennaramenntun og réttindi til kennslu í grunnskóla

  • Reynsla af kennslu á grunnskólastigi

  • Færni í að vinna í teymi og að fjölbreyttum verkefnum

  • Faglegur metnaður og ánægja af starfi með börnum

  • Frumkvæði og skipulögð vinnubrögð

  • Jákvæðni gagnvart skólaþróun

  • Góð hæfni í mannlegum samskiptum

Leik- og grunnskólastig:

  Staða leikskóla/skólaliða með ræstingu á leik- og grunnskólastigi (50-100% starfshlutfall)
 

Helstu verkefni og ábyrgð 

  • Að sinna gæslu barna á leik- og grunnskólaaldri

  • Aðstoða nemendur í leik og starfi og leiðbeina þeim í samskiptum

  • Starfar við lengda viðveru

  • Sér um ræstingu á skólahúsnæði

  • Að sinna öðrum verkum sem yfirmaður felur

Menntunar- og hæfniskröfur leikskóla/skólaliða:

  • Nám fyrir leikskólaliða eða skólaliða er æskileg

  • Reynsla af starfi með börnum

  • Góð hæfni í mannlegum samskiptum og sveigjanleiki í starfi

  • Sjálfstæði og frumkvæði í vinnubrögðum

  • Góð íslenskukunnátta

  Iðjuþjálfi á leik- og grunnskólastigi  (50-100% starfshlutfall)
 

Helstu verkefni og ábyrgð

  • Vinna með nemendum sem búa við margvísleg fjölþætt vandamál

  • Gerð einstaklings- og hópáætlana fyrir nemendur og eftirfylgd með þeim

  • Starfar í teymi með foreldum og kennurum

  • Skipuleggur starf með nemanda í samráði við umsjónarkennara/leikskólakennara

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun á sviði þroskaþjálfunar eða iðjuþjálfunar og starfsleyfi sem slíkur

  • Reynsla af starfi með börnum og unglingum með margvíslegan vanda

  • Lipurð í samskiptum, jákvæðni og sveigjanleiki í starfi

  • Faglegur metnaður

  • Frumkvæði og sjálfstæð vinnubrögð

  • Áhugi á að starfa í skapandi og metnaðarfullu umhverfi

  • Reynsla af teymisvinnu kostur

__________________________________________________________________________


Umsækjendur mega hvorki hafa hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga (kynferðisbrot), nr. 19/1940 frá því að hann var sakhæfur (15 ára) né hafa hlotið refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum. Rétt er að vekja athygli á því að við ráðningu er heimilt að sækja upplýsingar úr sakaskrá.
 

Umsókn um starf skal fylgja skrá yfir menntun og starfsferil og afrit af leyfisbréfi ef við á, kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar með rökstuðningi fyrir hæfni viðkomandi í starfið og upplýsingar um umsagnaraðila.
 

Umsókn sendist á skolastjori@talknafjordur.is. Öllum umsóknum verður svarað. Umsóknir gilda í sex mánuði frá því að umsóknarfrestur rennur út.
 

Fólk af öllum kynjum er hvatt til að sækja um. Fáist ekki menntaður kennara í stöðu sem auglýst er, er heimilt að ráða annan í stöðuna og ræður hæfni umsækjanda þar um. Önnur uppeldismenntun og/eða reynsla er þá metin. Ráðið verður í stöðurnar frá 1. ágúst 2022.
 

Nánari upplýsingar um starfið veitir Birna Friðbjört S. Hannesdóttir, skólastjóri, í síma 456-2537, netfang: skolastjori@talknafjordur.is
 

Umsóknarfrestur er til og með 03.05 2022
 



Yfirlýsing sveitarfélaganna á sunnanverðum Vestfjörðum í kjölfar umfjöllunar Kveiks um Breiðafjarðarferjuna Baldur

Í ljósi umfjöllunar um Breiðafjarðarferjuna Baldur í þætti Kveiks senda sveitarfélögin á sunnanverðum Vestfjörðum, Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur frá sér eftirfarandi yfirlýsingu.
 

Í þættinum var ömurlegt ástand skipsins sýnt, bæði hvað varðar öryggismál sem og almennan aðbúnað.
 

Vesturbyggð og Tálknafjarðarhreppur hafa ítrekað bent á þá staðreynd fyrir daufum eyrum að Breiðafjarðarferjan Baldur uppfylli ekki þá öryggisþætti og aðbúnað sem nútíma ferja á að gera. Öryggi farþega og áhafnar er stefnt í hættu alla daga og krefjast sveitarfélögin þess að samstundis verði brugðist við og ráðstafanir gerðar. Sveitarfélögin fagna því ef rétt er, að byrjað sé að teikna nýja ferju en þetta var í fyrsta skipti sem þær upplýsingar koma fram og hefur það ekki verið kynnt fyrir sveitarfélögunum.
 

Í þættinum kom fram að hafin væri endurhönnun á ekjubrúm á Brjánslæk og í Stykkishólmi og stefnt væri að því að Herjólfur III gæti hafið siglingar á haustmánuðum 2023. Eins og öllum ætti að vera ljóst sem sáu umfjöllun Kveiks er ekki hægt að draga úrbætur svo lengi og er algjörlega nauðsynlegt að Herjólfur III leysi Baldur af án tafar.
 

Sveitarfélögin á sunnanverðum Vestfjörðum krefjast þess að nauðsynlegar framkvæmdir verði settar í algjöran forgang og farið verði af stað með þær strax svo hægt verði að leggja núverandi ferju fyrir fullt og allt.


Umferðatafir verða vegna framkvæmda

Umferðatafir verða á Tálknafjarðarvegi milli Hólsár og íþróttahúss dagana 11-13 apríl vegna vinnu við endurnýjun ræsa. Beðist er velvirðingar á þeim óþægindum sem af þessu kunna að hljótast.

Allt í járnum ehf.

Auglýsing vegna framkvæmdar sveitarstjórnarkosninga í Tálknafjarðarhreppi 14.maí 2022

Kjörstjórn Tálknafjarðarhrepps tilkynnir að um óbundnar kosningar verði að ræða við sveitarstjórnarkosningar í Tálknafjarðarhreppi 14. maí 2022 þar sem engir framboðslistar bárust fyrir tilskilinn frest.

 

Samkvæmt 4. gr. kosningalaga nr. 112/2021 hafa kosningarétt í Tálknafjarðarhreppi:

  1. Hver íslenskur ríkisborgari sem náð hefur 18 ára aldri þegar kosning fer fram og á skráð lögheimili í sveitarfélaginu.

  2. Hver danskur, finnskur, norskur og sænskur ríkisborgari enda fullnægi hann að öðru leyti skilyrðum A. liðar

  3. Hver erlendur ríkisborgari annar en greinir í B. lið sem átt hefur skráð lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag enda fullnægi hann að öðru leyti skilyrðum A. liðar.

Í 6. grein kosningalaga nr. 112/2021 eru kjörgengir í sveitarstjórn hver sá sem kosningarétt hefur í sveitarfélaginu samkvæmt 4. grein, og hafa óflekkað mannorð.
 

Samkvæmt 49. grein kosningalaga, 4. málsgrein er þeim sem kjörgengir eru, heilir og hraustir og yngri en 65 ára skylt að taka kjöri í sveitarstjórn.



Eftirtaldir einstaklingar hafa skorast undan kjöri til sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps samkvæmt heimild í kosningalögum nr. 112/2021 49. grein, 5 málsgrein, þar sem þeir sem áður hafa setið í sveitarstjórn geta skorast undan kjöri:
 

  Ásgeir Jónsson, Túngötu 17

  Bjarnveig Guðbrandsdóttir, Miðtúni 7

  Björgvin Smári Haraldsson, Túngötu 29

  Guðni Jóhann Ólafsson, Móatúni 20

  Ingibjörg Ósk Þórhallsdóttir, Móatúni 4

  Ólafur Þór Ólafsson, Túngötu 42



Auglýsing um kjörstað og framkvæmd sveitarstjórnarkosninga í Tálknafjarðarhreppi 14. maí 2022 verður birt síðar.



Tálknafirði 08. apríl 2022

Kjörstjórn Tálknafjarðarhrepps.



Sveitarstjórnarkosningar 2022 - framboðsfrestur til 8. apríl

Skilafrestur framboða vegna sveitarstjórnarkosninga 2022 í Tálknafjarðarhreppi rennur út kl. 12:00 á hádegi þann 8.apríl 2022. Tilkynningum um framboð skal skilað til kjörstjórnar á sveitarskrifstofu Tálknafjarðarhrepps  föstudaginn 8. apríl milli klukkan 10:00 og 12:00

 

Nánari upplýsingar gefur kjörstjórn Tálknafjarðarhrepps. Leiðbeiningar vegna framboða til sveitarstjórnarkosninga má nálgast hér: https://www.stjornarradid.is/verkefni/kosningar/sveitarstjornarkosningar-2022/frambod-leidbeiningar/

 

Kjörstjórn vill vekja sérstaka athygli á 39. gr. kosningalaga. nr. 112/2021, en þar er kveðið á um fjölda meðmælenda með framboðslistum sem skuli vera að lágmarki 10 og hámarki 20 í Tálknafjarðarhreppi

 

Kjörstjórn Tálknafjarðarhrepps,

 Lilja Magnúsdóttir, formaður

 Sigurvin Hreiðarsson

 Pálína Kristín Hermannsdóttir

Eldri færslur
« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    
Næstu atburðir
Vefumsjón