A A A

Þakkir til starfsmanna sveitarfélagsins

Fræðslu-, menningar-, íþrótta- og æskulýðsnefnd bókaði þakkir til starfsmanna sveitarfélagsins á 36. fundi sínum sem fór fram 5. maí s.l. Bókunin er svo hljóðandi:
 

Fræðslu-, menningar-, íþrótta- og æskulýðsnefnd vill koma á framfæri hugheilum þökkum til starfsmanna stofnanna sveitarfélagsins fyrir óeigingjörn og mikilvæg störf síðustu vikur. Covid-19 faraldurinn hefur skapað óvenjulegar og krefjandi aðstæður þar sem starfsfólk sveitarfélagsins hefur verið í framvarðarlínu til að tryggja áframhaldandi góða þjónustu og það ber að þakka.

Gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum

Hafin er vinna við gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum á grundvelli laga um skipulag haf- og strandsvæða. Svæðisráð, skipað af umhverfis- og auðlindaráðherra, ber ábyrgð á gerð strandsvæðisskipulagsins en Skipulagsstofnun annast gerð þess í umboði svæðisráðanna.
 

Lýsing

Svæðisráð auglýsir lýsingu fyrir gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum Þar er gerð grein fyrir hvernig fyrirhugað er að standa að vinnu við gerð strandsvæðisskipulagsins. Lýsingin er aðgengileg hjá Skipulagsstofnun og á hafskipulag.is frá 7. maí til 1. júní. Nálgast má prentað eintak hjá Skipulagsstofnun.

 

Lýsing fyrir gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum.

 

Allir eru hvattir til að kynna sér efni lýsingarinnar og koma á framfæri ábendingum um nálgun og efnistök í skipulagsvinnunni. Ábendingar þurfa að vera skriflegar og má koma á framfæri bréfleiðis til Skipulagsstofnunar, með tölvupósti á hafskipulag@skipulag.is eða á athugasemdagátt á hafskipulag.is. Frestur til að koma á framfæri ábendingum er til 1. júní 2020.

 

Lýsing er kynnt samkvæmt 11. gr. laga um skipulag haf- og strandsvæða.

 

Samráðsvefsjá

Opnuð hefur verið samráðsvefsjá um gerð strandsvæðisskipulags á Austfjörðum og Vestfjörðum. Þar er hægt er að koma á framfæri upplýsingum um hvernig svæðin eru nýtt til afþreyingar, ferðaþjónustu og nytja ásamt áherslum varðandi styrkleika svæðanna, áskoranir og tækifæri. Allir eru hvattir til þess að taka þátt. Vefsjáin verður opin til 4. júní. Upplýsingar sem safnast í gegnum vefsjánna verða nýttar í vinnunni framundan við gerð strandsvæðisskipulags á Austfjörðum og Vestfjörðum.

 

Kynningarfundur

Fyrirhuguð vinna við gerð strandsvæðisskipulags á Vestfjörðum verður kynnt á veffundi sem streymt verður á Facebook-síðu Skipulagsstofnunar þann 12. maí kl. 15:00.

 

Allir sem hafa áhuga eru hvattir til að taka þátt í fundunum. Nánari upplýsingar um fundina eru á hafskipulag.is.

 

Kynningarfundur

Til stóð að halda samráðsfundi samhliða kynningu á lýsingu en vegna samkomutakmarkana hefur þeim verið frestað. Samráðsfundirnir verða haldnir haustið 2020 og verða þeir auglýstir þegar nær dregur. Á fundunum verður þátttakendum boðið til samtals um stöðu svæðisins, styrkleika og áskoranir og leitað eftir ábendingum þátttakenda um núverandi og framtíðar nýtingu þess. Fundirnir verða öllum opnir.

 

Hafskipulag.is

Jafnframt er athygli vakin á að á nýju vefsvæði skipulags á haf- og strandsvæðum, hafskipulag.is má nálgast frekari upplýsingar um skipulag á haf- og strandsvæðum ásamt gerð strandsvæðisskipulags og framvindu vinnunnar á hvoru svæði.

Hjólað í vinnuna

Tálknafjarðarhreppur hvetur íbúa og starfsmenn til þátttöku í verkefninu Hjólað í vinnuna.

Megin markmið verkefnisins er vekja athygli á virkum ferðamáta sem heilsusamlegum, umhverfisvænum og hagkvæmum samgöngumáta. Þátttakendur eru hvattir til að hjóla, ganga eða hlaupa til og frá vinnu í þrjár vikur í maí ár hvert.

Frá árinu 2003 hefur Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands staðið myndarlega að því að efla hreyfingu og starfsanda á vinnustöðum með heilsu- og hvatningarverkefninu “Hjólað í vinnuna”. Starfsmenn vinnustaða hér á landi hafa tekið vel við sér því þátttakan hefur margfaldast síðan verkefnið fór af stað.

Hjólað í vinnuna fer fram dagana 6.-26. maí 2020.
Nánari upplýsingar og skráning á  www.hjoladivinnuna.is
 

Dósamóttakan er opin í kvöld frá kl: 20-21

Nemendur 9.-10.bekkjar Tálknafjarðarskóla eru með móttökustöð Endurvinnslunnar á Tálknafirði fyrir skilagjaldskyldar einnota drykkjarumbúðir. Tekið er á móti umbúðum að Strandgötu 36
fyrsta miðvikudag í hverjum mánuði kl: 20-21.
Allur ágóði af þessari umsýslu rennur óskiptur í nemendasjóð skólans.
 

Móttökustöð fyrir skilagjaldskyldar drykkjarumbúðir (.pdf)

Skólavist í Tálknafjarðarskóla

Við hvetjum alla þá sem stunda ekki nám í leik- eða grunnskóla nú þegar við Tálknafjarðarskóla að sækja um skólavist núna í maí.
 

Allir nemendur í skólahóp leikskóla eru sjálfkrafa skráðir í 1. bekk og þurfa því ekki að sækja um.

 

Allir foreldrar/forráðamenn, óháð búsetu, hafa rétt til að sækja um leikskólavist í leikskóladeild Tálknafjarðarskóla, en lögheimilisflutningur verður að hafa átt sér stað við upphaf leikskóladvalar nema sótt sé um undanþágu hjá viðkomandi lögheimilissveitarfélagi. Börn geta hafið leikskólagöngu allt niður í 12 mánaða aldur við aðal innritun, og fer eftir fæðingarmánuði barnsins. Tálknafjarðarskóli áskilur sér rétt til að innrita börn í leikskóla eftir aldri (lög um leikskóla nr. 90/2008, 26. gr.). Aðalúthlutun leikskólavistar fer fram að vori ár hvert vegna leikskólarýma sem losna þegar börn hætta vegna aldurs. Aðrar úthlutanir fara fram jöfnum höndum allt skólaárið, þegar leikskólarými losna vegna flutninga eða annarra ástæðna. Sækja má um leikskólavist fyrir barn um leið og kennitala þess hefur verið skráð í þjóðskrá. Því fyrr sem sótt er um leikskólavist því meiri líkur eru á að barnið komist að á þeim tíma sem foreldrar óska.

 

Leikskólinn byrjar aftur eftir sumarfrí þann 17. ágúst 2020 og skólasetning grunnskóla verður fimmtudaginn 20. ágúst 2020. 
 

Einnig hefur verið opnað fyrir skráningu í lengda viðveru fyrir skólaárið 2020-2021 og fer hún fram hér:

https://forms.gle/HW1sWTKLcYA2c2vU9

Tálknafjarðarskóli auglýsir lausar stöður við skólann

Skólinn er samrekinn leik-, grunn- og tónlistarskóli undir einu þaki. Í skólanum eru um 50 nemendur. Í skólanum fer fram öflugt og framsækið skólastarf þar sem lögð er áhersla á að koma til móts við hvern og einn nemanda. Skólinn er grænfánaskóli og UNESCO skóli.
 

Tálknafjörður er afar fallegur fjörður sem þekktur er fyrir einstaka veðurblíðu. Íbúarnir eru miklir íþróttaálfar og státar þorpið af glæsilegri íþróttamiðstöð með tækjasal, 25m sundlaug og fjöldann allan af skipulögðum íþróttatímum. Atvinnulíf er með miklum blóma og uppbygging fiskeldis og ferðaþjónustu á svæðinu býður upp á mikil tækifæri.
 

Tálknafjarðarskóli leitar að metnaðarfullum, sjálfstæðum og drífandi starfsmönnum með mikla þekkingu og áhuga á skólastarfi. Í Tálknafjarðarskóla eru lausar til umsóknar eftirfarandi stöður:
 

Staða umsjónarkennara á yngsta stigi grunnskóla (100% starfshlutfall)

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari

  • Reynsla af kennslu á grunnskólastigi

  • Færni í að vinna í teymi og að fjölbreyttum verkefnum

  • Faglegur metnaður og ánægja af starfi með börnum

  • Frumkvæði og skipulögð vinnubrögð

  • Jákvæðni gagnvart skólaþróun

  • Góð hæfni í mannlegum samskiptum

  • Hefur hreint sakarvottorð

Staða sérgreinakennara á öllum stigum grunnskóla, felst í heimilisfræðikennslu og tungumálakennslu
(100% starfshlutfall)

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Leyfi til að nota starfsheitið grunnskólakennari

  • Reynsla af kennslu á grunnskólastigi

  • Reynsla og þekking á heimilisfræði og tungumálum

  • Faglegur metnaður og ánægja af starfi með börnum

  • Frumkvæði og skipulögð vinnubrögð

  • Jákvæðni gagnvart skólaþróun

  • Góð hæfni í mannlegum samskiptum

  • Hefur hreint sakarvottorð

Umsækjendur mega hvorki hafa hlotið refsidóm vegna brota á ákvæðum XXII. kafla almennra hegningarlaga (kynferðisbrot), nr. 19/1940 frá því að hann var sakhæfur (15 ára) né hafa hlotið refsidóm fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, á síðastliðnum fimm árum. Rétt er að vekja athygli á því að við ráðningu er heimilt að sækja upplýsingar úr sakaskrá.
 

Umsókn um starf skal fylgja skrá yfir menntun og starfsferil og afrit af leyfisbréfi ef við á, kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar með rökstuðningi fyrir hæfni viðkomandi í starfið og upplýsingar um umsagnaraðila.
 

Umsókn sendist á talknafjardarskoli@talknafjordur.is. Öllum umsóknum verður svarað. Umsóknir gilda í sex mánuði frá því að umsóknarfrestur rennur út.
 

Fólk af öllum kynjum er hvatt til að sækja um. Ráðið verður í stöðurnar frá 1. ágúst 2020.
 

Nánari upplýsingar um starfið veitir Birna Friðbjört S. Hannesdóttir, skólastjóri, í síma 456-2537, netfang: skolastjori@talknafjordur.is
 

Umsóknarfrestur er til og með 14.05 2020.
 



Eldri færslur
« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    
Næstu atburðir
Vefumsjón