Mynd: Eygló Hreiðarsdóttir
Nú líður að lokum ársins 2018 og nýtt og spennandi ár tekur við en árið sem er að líða var líflegt en átakamikið. Þetta var ár sveitarstjórnakosninga með tilheyrandi pústrum og ágreiningi og hér á Tálknafirði tókust íbúar á. Það urðu breytingar og sjálfsagt einhver sárindi en niðurstaðan engu að síður sú að í sveitarstjórn situr samhent fólk sem vill bæjarfélaginu vel og er staðráðið í að gera gagn.
Vestfirðingar eru móðir nokkuð eftir bardaga ársins sem hafa verið óvenju hatrammir og kalla þeir þó ekki allt ömmu sínu í þeim efnum. Niðurfelling starfsleyfa hjá fiskeldisfyrirtækjum okkar í byrjun október var reiðarslag og þrátt fyrir að tekist hafi að afstýra stórslysi í bili, liggur fyrir að tjónið er gríðarlegt. Það traust sem íbúar báru til framtíðar sinnar á svæðinu var brotið og það mun taka langan tíma að byggja það upp aftur. Nú ríður á að stjórnvöld hysji upp um sig og setji lög um þessa mikilvægu atvinnugrein, lög sem tryggi fyrirsjáanlegt og eðlilegt starfsumhverfi greinarinnar. Um leið þarf að bæta eftirlit og vöktun náttúrunnar, við erum að nýta náttúruna og við berum ábyrgð á að valda ekki tjóni. Í okkar þröngu og bröttu fjörðum er hafið akur okkar og við krefjumst réttar til að nýta hann, um leið finnum við til ábyrgðar vegna náttúrunnar og við þurfum að standa undir þeirri ábyrgð.
Nýuppreistir vegatálmar okkar ágætu nágranna í Reykhólasveit hafa komið okkur öllum að óvörum og sárt að sjá áratuga samstöðu Vestfirðinga fuðra upp með þessum hætti. Vandséð er hverra hagsmuna er verið að gæta í þeirri vegferð sem sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur lagt upp í en sitji þau við sinn keip eru engar líkur á vegabótum fyrir okkur Tálknfirðinga á þessu kjörtímabili. Þetta er þyngra en tárum taki.
En það er ekkert víst þetta klikki. Við bindum vonir við að fiskeldisfyrirtækin haldi starfsleyfum sínum og alþingi setji lög um atvinnugreinina sem losar okkur undan þessum átökum eilíflega og hægt verði að halda áfram veginn. Byggja upp þjónustu við fiskeldið, fjölga íbúum og auðga okkar annars ágæta mannlíf. Við vonum líka að vinir okkar og nágrannar í Reykhólasveit sjái að sér og um leið rífi Vegagerðin úr pússi sínu fjármuni til að hefja þegar í stað framkvæmdir við nýjan veg um þessa óvenjulega fallegu sveit sem Reykhólahreppur er.
Það sem liggur fyrir um þessi áramót er að það verður brenna í kvöld og það verður flugeldasýning hjá björgunarsveitinni. Það liggur líka fyrir að árið 2019 kemur með öllum sínum uppákomum, sigrum og ósigrum og eins gott að taka því opnum örmum, grípa tækifærin og yfirstíga hindranir, það gerum við best samstíga og baráttuglöð.
Ég þakka vinsemd og góðar móttökur hér á Tálknafirði, hér er gott að búa.
Bryndís Sigurðardóttir
sveitarstjóri
Björgvin Smári Haraldsson | mánudagurinn 31. desember 2018