A A A

Fundur með umhverfis- og samgöngu­nefnd alþingis

Lilja Magnúsdóttir, Bjarnveig Guðbrandsdóttir, Rebekka Hilmarsdóttir, Iða Marsibil Jónsdóttir og Bryndís Sigurðardóttir.
Lilja Magnúsdóttir, Bjarnveig Guðbrandsdóttir, Rebekka Hilmarsdóttir, Iða Marsibil Jónsdóttir og Bryndís Sigurðardóttir.

Fulltrúar bæjarstjórnar Vesturbyggðar og sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps mættu á fund umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis í dag til að fara yfir þá alvarlegu stöðu sem uppi er vegna vegalagningar Vestfjarðavegar um Gufudalssveit. 
 
Á fundinum var komið á framfæri við nefndina áherslum og hagsmunum sveitarfélaganna um mikilvægi þess að farið verði í vegabætur á Vestfjarðavegi strax. Var nefndin upplýst um að frekari tafir á vegalagningu geti haft alvarleg áhrif fyrir Vestfirði. Þá voru nefndarmenn upplýstir um þau samskipti sem sveitarfélögin tvö ásamt Fjórðungssambandi Vestfjarða hafa átt við sveitarstjórn Reykhólahrepps á síðustu mánuðum. Fulltrúar sveitarfélaganna tveggja lögðu áherslu á að áfram yrði unnið með Þ-H leiðina, þar sem undirbúningur vegna þeirrar vegalagningar er lengra á veg komin en undirbúningur vegna R-leiðarinnar en Vestfirðingar geta ekki beðið lengur eftir fullnægjandi samgöngubótum. Á fundinum voru ekki teknar ákvarðanir en ljóst er að skera þarf á þann hnút sem enn og aftur er kominn upp í þessu máli.

 

Nýtt og spennandi ár

Mynd: Eygló Hreiðarsdóttir
Mynd: Eygló Hreiðarsdóttir

Nú líður að lokum ársins 2018 og nýtt og spennandi ár tekur við en árið sem er að líða var líflegt en átakamikið. Þetta var ár sveitarstjórnakosninga með tilheyrandi pústrum og ágreiningi og hér á Tálknafirði tókust íbúar á. Það urðu breytingar og sjálfsagt einhver sárindi en niðurstaðan engu að síður sú að í sveitarstjórn situr samhent fólk sem vill bæjarfélaginu vel og er staðráðið í að gera gagn.
 

Vestfirðingar eru móðir nokkuð eftir bardaga ársins sem hafa verið óvenju hatrammir og kalla þeir þó ekki allt ömmu sínu í þeim efnum. Niðurfelling starfsleyfa hjá fiskeldisfyrirtækjum okkar í byrjun október var reiðarslag og þrátt fyrir að tekist hafi að afstýra stórslysi í bili, liggur fyrir að tjónið er gríðarlegt. Það traust sem íbúar báru til framtíðar sinnar á svæðinu var brotið og það mun taka langan tíma að byggja það upp aftur. Nú ríður á að stjórnvöld hysji upp um sig og setji lög um þessa mikilvægu atvinnugrein, lög sem tryggi fyrirsjáanlegt og eðlilegt starfsumhverfi greinarinnar. Um leið þarf að bæta eftirlit og vöktun náttúrunnar, við erum að nýta náttúruna og við berum ábyrgð á að valda ekki tjóni. Í okkar þröngu og bröttu fjörðum er hafið akur okkar og við krefjumst réttar til að nýta hann, um leið finnum við til ábyrgðar vegna náttúrunnar og við þurfum að standa undir þeirri ábyrgð.
 

Nýuppreistir vegatálmar okkar ágætu nágranna í Reykhólasveit hafa komið okkur öllum að óvörum og sárt að sjá áratuga samstöðu Vestfirðinga fuðra upp með þessum hætti. Vandséð er hverra hagsmuna er verið að gæta í þeirri vegferð sem sveitarstjórn Reykhólahrepps hefur lagt upp í en sitji þau við sinn keip eru engar líkur á vegabótum fyrir okkur Tálknfirðinga á þessu kjörtímabili. Þetta er þyngra en tárum taki.
 

En það er ekkert víst þetta klikki. Við bindum vonir við að fiskeldisfyrirtækin haldi starfsleyfum sínum og alþingi setji lög um atvinnugreinina sem losar okkur undan þessum átökum eilíflega og hægt verði að halda áfram veginn. Byggja upp þjónustu við fiskeldið, fjölga íbúum og auðga okkar annars ágæta mannlíf. Við vonum líka að vinir okkar og nágrannar í Reykhólasveit sjái að sér og um leið rífi Vegagerðin úr pússi sínu fjármuni til að hefja þegar í stað framkvæmdir við nýjan veg um þessa óvenjulega fallegu sveit sem Reykhólahreppur er.
 

Það sem liggur fyrir um þessi áramót er að það verður brenna í kvöld og það verður flugeldasýning hjá björgunarsveitinni. Það liggur líka fyrir að árið 2019 kemur með öllum sínum uppákomum, sigrum og ósigrum og eins gott að taka því opnum örmum, grípa tækifærin og yfirstíga hindranir, það gerum við best samstíga og baráttuglöð.
 

Ég þakka vinsemd og góðar móttökur hér á Tálknafirði, hér er gott að búa.
 

Bryndís Sigurðardóttir

sveitarstjóri

Gleðilega hátíð

Sendum hugheilar jóla- og nýárskveðjur til íbúa Tálknafjarðarhrepps
og landsmönnum öllum.
 

Með kærri þökk fyrir samskiptin á árinu sem er að líða.
 

Sveitarstjórn og starfsfólk Tálknafjarðarhrepps

Fundur vegna byggðakvóta

Sveitarstjórn boðar hagsmunaaðila vegna úthlutunar á byggðakvóta til fundar.

Fundurinn verður haldinn í húsnæði eldri borgara í Vindheimum
7. janúar 2019 og hefst kl. 20:00.
 

Allir sem telja sig hafa hagsmuna að gæta eru velkomnir.

 

Bryndís Sigurðardóttir

Sveitarstjóri

Umferðartölur hunsaðar í skýrslu Viaplan

Samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps sem kom saman þann 4. desember ályktaði með eftirfarandi hætti:

 

Fulltrúar Samráðsnefndar Vesturbyggðar og Táknafjarðarhrepps eru sammála um nauðsyn þess ad flýta endurnýjun vegarins um Mikladal milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar sem kostur er. Brýn þörf er orðin á endurnýjun vegarins vegna aldurs hans og ástands sem samrýmist ekki þeim kröfum sem gerðar eru til vega í dag. Miklidalur er fjölfarnasti fjallvegur Vestfjarða og nauðsynlegt að tryggja öruggar samgöngur á þessari leið sem kostur er vegna mikilvægis hennar sem tenging milli þéttbýlisstaða á sunnanverðum Vestfjörðum.

 

Samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps leggur mikla áherslu á mikilvægi þess að bæta vegasamgöngur við sunnanverða Vestfirði sem allra fyrst. Sú staða sem komin er upp vegna þess að Reykhólahreppur hefur dregið að taka ákvörðun um veglínu nýlagningar á Vestfjarðavegi 60 setur allar áætlanir um uppbyggingu vegarins og fjármögnun framkvæmda í uppnám.

 

Samráðsnefnd Vesturbyggðar og Tálknafjarðarhrepps harmar það rof í áratuga samstöðu þessara þriggja sveitarfélag um vegabætur á Vestfjarðarvegi 60, sem virðist vera orðið með drætti á ákvörðun Reykhólahrepps og hvetur sveitarstjórn Reykhólahrepps til að standa við fyrri ákvörðun sveitarstjórnar þannig að framkvæmdir getir hafist sem allra fyrst. Samgöngur við sunnanverða Vestfirði samkvæmt Þ-H leiðinni eru gríðarlega mikilvægar og brýnt að þar takist vel til með veghönnun og lagningu með framtíðarnotkun vegarins í huga, öllum íbúum sunnanverðra Vestfjarða til hagsbóta.

 

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps tók fyrir fundargerð Samráðsnefndar þann 13. desember s.l. og samþykkti bókun Samráðsnefndar samhljóða en bætti við eftirfarandi:

 

Í niðurstöðum valkostagreiningar Viaplan er réttur þeirra íbúa sem búa vestan við Reykhóla alvarlega sniðgenginn með því að hunsa umferðartölur á Vestfjarðavegi frá árinu 2017 þar sem veruleg aukning í umferð er talin möguleg villa en ekki aukning í atvinnuakstri eins og fyrirtæki hér á sunnanverðum Vestfjörðum geta borið vitni um. Slík nálgun á jafnmikið hagsmunamál og bættar samgöngur eru fyrir íbúa á sunnanverðum Vestfjörðum er algjörlega óafsakanleg og óskiljanleg. Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps krefst þess að tekið sé fullt tillit til hagsmuna íbúa og fyrirtækja á sunnanverðum Vestfjörðum af bættum samgöngum og styttri vegalengd þar sem að öðrum kosti mun kostnaður af lengri akstri falla á þá notendur sem koma vestan að en ekki íbúa Reykhólahrepps. Slíkt er óásættanlegt á tímum baráttu við loftslagsbreytingar og hagræðingar í samgöngumálum.
 

Bryndís Sigurðardóttir

Sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps

Ákall til íbúa Reykhólahrepps

 Bæjarstjórn Vesturbyggðar og sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps
Bæjarstjórn Vesturbyggðar og sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps

Sveitarstjórn Tálknafjarðarhrepps og Bæjarstjórn Vesturbyggðar biðla til íbúa Reykhólahrepps að leggjast á árar með okkur við að ljúka endurnýjun Vestfjarðavegar sem stofnbrautar sem allra fyrst og leysa þannig samgönguvandamál Vestfjarða. 

 

Samgöngur okkar Vestfirðinga hafa lengi valdið íbúum og fyrirtækjum erfiðleikum og mikil vinna verið lögð í endurbætur á Vestfjarðavegi. Hingað til hefur algjör sátt og einhugur ríkt meðal allra sveitarstjórna á Vestfjörðum um að leggja áherslu á láglendisveg út úr fjórðungnum samkvæmt leið Þ-H til að stytta ferðatíma og auðvelda samgöngur árið um kring. Nú eru blikur á lofti þegar við heyrum að rof hefur orðið í þessari samstöðu okkar Vestfirðinga þegar sveitarstjórn Reykhólahrepps virðist ætla að fara aðrar leiðir en áður hefur verið sátt um.

 

Við íbúar í Vesturbyggð og Tálknafirði óskum eftir nánu samstarfi við íbúa Reykhólahrepps um að koma samgöngumálum okkar í viðunandi horf sem allra fyrst. Vestfirðingar eru of fáir til að standa ekki saman í sínum framfaramálum og brýnt að við stöndum öll saman að hagsmunamálum fjórðungsins sem áður. Framundan er stór ákvörðun sem sveitarstjórn Reykhólahrepps þarf að taka og við óskum eftir því að tekið verði tillit til hagsmuna okkar íbúa og fyrirtækja á Vestfjörðum við þá ákvörðun. Það skiptir alla Vestfirðinga gríðarlegu máli að fá samgöngubætur á Vestfjarðavegi í gegn sem allra fyrst og íbúar Reykhólahrepps hafa lykilinn að þeim samgöngubótum í sínum höndum.

 

Við óskum jafnframt eftir stuðningi stjórnvalda til að koma þessum brýnu samgöngubótum samkvæmt Þ-H leið á Vestfjarðavegi í gegn sem allra fyrst.

Eldri færslur
« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
Næstu atburðir
Vefumsjón