A A A

Dýrafjarðargöng opnuð 25. október

Dýrafjarðargöng verða opnuð sunnudaginn 25. október 2020. Opnunin verður með óvenjulegu sniði í ljósi þess ástands sem ríkir í þjóðfélaginu. Stutt athöfn fer fram klukkan 14 í húsnæði Vegagerðarinnar Borgartúni 7 þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra mun halda ræðu sem útvarpað verður í þá bíla sem bíða þess að aka í fyrsta sinn í gegnum göngin.
 

Ráðherra mun hringja í vaktstöð Vegagerðarinnar á Ísafirði sem opnar þá hliðin að göngunum beggja megin frá. Þar með verða göngin opin.
 

Vegurinn upp að göngunum verður opnaður að morgni sunnudagsins og Vestfirðingar eru hvattir til að mæta, hlusta á stutta ræðu inní bílum sínum og vera með þeim fyrstu til að aka í gegnum göngin.
 

Vígsla jarðganga er yfirleitt mikill viðburður enda hafa slík göng gríðarmikil áhrif á samgöngur í sveitarfélögum. Vestfirðingar hafa lengi beðið Dýrafjarðarganga sem koma í stað vegarins yfir Hrafnseyrarheiði sem hefur verið einn helsti farartálminn milli byggða á norðanverðum og sunnanverðum Vestfjörðum. Með tilkomu ganganna styttist Vestfjarðavegur um 27,4 km. Til stendur að halda veglegri viðburð með rísandi sól þegar aðstæður í þjóðfélaginu leyfa.

Viðburðinum verður einnig streymt rafrænt á facebooksíðu Vegagerðarinnar.

Kallað eftir umsóknum í Uppbyggingarsjóð

Nú er hægt að sækja um styrki í Uppbyggingarsjóð Vestfjarða.
Um 50 milljónir króna eru til úthlutunar. 
Sjóðurinn hefur á undanförnum árum veitt styrki til ótal verkefna á sviði menningar, nýsköpunar og atvinnuþróunar.  Einnig geta menningarstofnanir sótt um stofn- og rekstrarstyrki.
 

Umsóknarfrestur er til 12. nóvember kl. 16:00
 

Hér má finna leiðbeiningar um umsóknir, lista yfir fyrri úthlutanir, Sóknaráætlun Vestfjarða og fleira.
 

Áfangastaðaáætlun Vestfjarða

Nú á dögunum voru birt drög að endurnýjaðri Áfangastaðaáætlun Vestfjarða en fyrri áætlun var gefin út 2018. Áætlunin er birt sem drög en hún á enn eftir að fá umfjöllun hjá sveitarfélögunum á Vestfjörðum, en er það ferli í gangi núna.
 
Drög að áætluninni má finna hér.
 

Vestfjarðastofa kallar nú eftir athugasemdum og er frestur til athugasemda til 15. nóvember 2020 og má senda ábendingarnar á diana@vestfirdir.is
 

Við vinnu áfangastaðaáætlunar 2018 var svæðinu skipt í þrennt; Strandir og Reykhóla, norðanverða Vestfirði og sunnanverða Vestfirði og voru lagðar fram aðgerðaráætlanir fyrir hvert svæði ásamt einni áætlun fyrir Vestfirði í heild. Við gerð aðgerðaráætlananna var fundað á hverju svæði en ekki innan hvers sveitarfélags og því má segja að það vantaði ákveðna dýpt í lista aðgerða. Það var því ákveðið við endurnýjun áætlunarinnar að funda með fulltrúum allra níu sveitarfélaganna sem og í hverjum þéttbýliskjarna, eða í 12 þéttbýliskjörnum í heildina.
 

Í áætluninni eru settar fram fjórar aðgerðaráætlanir, ein fyrir hvert svæði Vestfjarða og ein fyrir Vestfirði í heild. Jafntframt er í viðaukum settir fram sérstakir listar yfir hlaupa-, göngu- og hjólaleiðir sem og listi yfir áningarstaði sem lögð var áhersla á í vinnunni.
 

Ferjan Baldur - breyting á áætlun

Farþegar athugið, breyting verður á áætlun ferjunnar Baldurs frá og með mánudeginum, 19. október 2020. Þá verða farnar tvær ferðir á mánudögum en ekki á þriðjudögum.
 
Áætlun ferjunnar Baldurs í vetur verður þá eftirfarandi:
 
Þriðjudaga, miðvikudaga, fimmtudaga og sunnudaga.
Brottför kl. 15.00 frá Stykkishólmi
Brottför kl. 18.00 frá Brjánslæk
 
Mánudaga og föstudaga.
Brottför kl. 9.00 og 15.00 frá Stykkishólmi
Brottför kl. 12.00 og 18.00 frá Brjánslæk

https://www.saeferdir.is/

Nýr forstöðumaður Tunglsins

Sveinn Jóhann Þórðarson hefur verið ráðinn sem nýr forstöðumaður Tunglsins. Ungmennastarf í Tunglinu verður í vetur á mánudögum og þriðjudögum á milli 19:30 og 21:30. Fyrsti opnunardagur þennan veturinn verður í kvöld 13. október. Síðustu ár hefur félagsmiðstöðvarlíf á sunnanverðum Vestfjörðum verið samofið að hluta til. Sameiginleg dagskrá hefur hins vegar verið lögð á ís á meðan samkomutakmarkanir eru í gildi. Á tímum COVID er æskilegt að ítreka það að finni ungmennin fyrir einhverjum einkennum er best að halda sig heima.

Fjárhagsáætlun Tálknafjarðarhrepps

Tálknafjarðarhreppur leitar til íbúa í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar 2021. Óskað er eftir hugmyndum varðandi rekstur, hagræðingu, útgjöld, fjárfestingar og viðhald.
 

Hægt er að skila hugmyndum, ábendingum og tillögum með tölvupósti á netfangið talknafjordur@talknafjordur.is eða með því að koma með þær skriflegar á skrifstofu sveitarfélagsins. Frestur til að koma hugmyndum á framfæri er til mánudagsins 19. október 2020.
 

Vegna Covid-19 verður ekki haldinn íbúafundur í tengslum við gerð fjárhagsáætlunar í þetta skiptið og þessi leið farin þess í stað.

 

Ólafur Þór Ólafsson

sveitarstjóri

Eldri færslur
« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    
Næstu atburðir
Vefumsjón