Háskóli Íslands stendur í vetur fyrir nýsköpunarhraðli fyrir konur undir merkjum AWE eða Academy for Woman Entrepreneurs í samvinnu við bandaríska sendiráðið á Íslandi. Þetta er í annað sinn sem hraðallinn er haldinn.
Aldrei hefur verið mikilvægara en nú að fjölga sprotum og efla nýsköpun í íslensku efnahagslífi og að sama skapi auka hlut kvenna á þeim vettvangi. Markmið hraðalsins er að efla konur til að þróa áfram sínar viðskiptahugmyndir, bjóða upp á fræðslu og efla tengslanetið.
Verkefnið er á vegum bandarískra stjórnvalda og er í boði víða um heim. Það samanstendur af netnámskeiðinu Dreambuilder á vegum Thunderbird School of Managament við Ríkisháskólann í Arizona og vinnulotum sem Háskóli Íslands heldur utan um. Ein staðlota verður haldin fyrir norðan í samvinnu við Háskólann á Akureyri.
Einstaklingar sem skilgreina sig sem konur og á öllum aldri geta sótt um að taka þátt í hraðlinum og verða 40-50 umsækjendur valdir til þátttöku. Hægt er að sækja um sem einstaklingur eða lið.
Æskilegt er að umsækjendur hafi viðskiptahugmynd sem þróuð verði í gegnum námskeiðið eða hafi nýlega stofnað fyrirtæki sem hefur gagn af því að fara í gegnum hraðalinn.
Þær konur sem verða valdar til þátttöku skuldbinda sig til að fara í gegnum efni netnámskeiðsins og taka þátt í vinnulotum.
Opið er fyrir umsóknir fram til 17. janúar 2022 og er hægt að fá nánari upplýsingar á vefsíðunni www.awe.hi.is
Björgvin Smári Haraldsson | þriðjudagurinn 11. janúar 2022