A A A

Sorphirða í Tálknafjarðarhreppi

Um mitt sumar bauð Tálknafjarðarhreppur út sorphirðu í sveitarfélaginu, bæði fyrir heimili, stofnanir og móttökusvæði. Unnið var út frá frumgreinavinnu sem verkfræðistofan Efla vann fyrir Tálknafjarðarhrepp og útboðsgögn í framhaldi af þeirri vinnu unnin af Tækniþjónustu Vestfjarða, vinna þessi var unnin í samstarfi við Vesturbyggð sem stendur að útboði með Tálknafjarðarhreppi.
 

Leitast var eftir því af  fremsta megni að Tálknafjarðarhreppur myndi komast í röð þeirra sveitarfélaga sem hvað best myndu uppfylla megin hugsun, sem býr í nýjum lögum varðandi sorp og nefnt er hringrásarhagkerfi.
 

Terra ehf (áður Gámaþjónustan) hefur um árabil þjónustað sveitarfélagið í þessum málum en nú var Kubbur hlutskarpast og tekur því við. Formleg skipti fara fram núna um mánaðarmótin ágúst – september.
 

Nýr verktaki mun fá tíma til að komast af stað með þjónustu og verkferla og Tálknafjarðarhreppur í samvinnu við nýjan verktaka koma af stað kynningarferli sem miðast að því að upplýsa íbúa um fyrirkomulag og tímasetninga á þeim breytingum sem koma skulu.
 

Stefnt er að því að næsta mánuðinn verði unnið að útfærslu á hirðu og söfnunarsvæðum og að innan þriggja mánaða verði farið af stað skv. nýju kerfi, þar sem endurnýting, endurnotkun og lífrænt efni verður miðdepill þeirrar vinnu í sorphirðu sem fram undan er.  Fyrst um sinn munu íbúar ekki verða varir við neinar breytingar og mun sorpið verða sótt með óbreyttum hætti.

Breytingar á þjónustu og tíðni sorphirðu verða kynntar síðar.
 

Að lokum er Terra ehf. færðar þakkir fyrir ánægjulegt samstarf á undanförnum árum. Kubb er boðið velkomið til starfa og óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi með von um gott samstarf í framtíðinni.
 

 

Fjallskila­seðill og réttir 2021

Vest­ur­byggð og Tálkna­fjarða­hreppur hafa nú gefið út fjallskila­seðil fyrir árið 2021 og er hann birtur hér. Seðillinn hefur einnig verið sendur í pósti.

Fjallskil fara fram samkvæmt fjallskila­sam­þykkt fyrir Barða­strandar- og Ísafjarð­ar­sýslur nr. 716/2012. Lögin og samþykktina má nálgast hér fyrir neðan. Samþykktin er einnig birt í markaskránni (Vestfjarðaskrá)
 

Fjallskilanefnd skorar á alla land- og fjáreigendur að láta sinn hlut ekki eftir liggja og leggja fram menn í leitir skv. beiðni leitarstjóra. Vanræksla eins bitnar á öðrum og gerir allt skipulag erfitt í framkvæmd.
 

Tilgangurinn er að reyna að létta okkur smölunina með því að sem flestir geti unnið saman og sem skemmstur tími líði milli smölunar á samliggjandi svæðum. Árangurinn ætti að verða betri heimtur.
  

Hlutverk leitarstjóra er að sjá til þess að leitir séu mannaðar. Dagssetningar á seðlinum eru byggðar á reynslu fyrri ára.

Athugasemdum við fjallskilaseðil skal beina til formanns fjallskilanefndar og skulu þær berast fyrir 6. september 2021.

 

Sveitarstjórnarfundur

Boðað er til 577. fundar sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps sem fer fram á skrifstofu sveitarfélagsins að Strandgötu 38, Tálknafirði, fimmtudaginn 2. september og hefst hann kl. 18:00.
 

Sjá fundarboð hér (.pdf)
 
Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri

Hreyfivika á Tálknafirði 30.ágúst – 5.september 2021

Ágætu bæjarbúar.

Nú er hreyfimánuður í Tálknafjarðarskóla þar sem nemendur og starfsfólk hafa verið hvött til að koma gangandi eða hjólandi í skólann. Nú langar okkur að hafa hreyfiviku fyrir bæjarbúa þar sem markmiðið er að njóta útiveru og hreyfa sig. Ýmislegt er í boði, vonandi taka sem flestir þátt og upplagt fyrir foreldra að koma með börnum sínum. Munum fullorðnir eru fyrirmynd og að jákvætt hugarfar er smitandi.

Í boði verður:

  • Mánudagur 30.ágúst kl: 17. Ganga á Tungufell og týna kannski ber á leiðinni niður.

  • Þriðjudaginn 31.ágúst kl: 17. Hjólreiðartúr að Deildárgili sem er aðeins utar en Hraun. Skoðum okkur aðeins um þar.

  • Miðvikudaginn 1.sept.kl: 17. Útizumba og útileikir hjá Mayu. Hittumst hjá skólanum.

  • Fimmtudaginn 2.sept. kl: 17 Gönguferð í skógræktinni, útijóga og Gong slökun ef veður leyfir. Hittumst hjá Túngötu 39.

  • Föstudagur 3.sept. kl: 17 Sjósund. Hittumst hjá pollinum. Það má líka bara vaða…😊

  • Laugardagur 4.sept. kl: 13 Hjólreiðatúr að Hrauni og gengið eftir fjörunni. Tökum með nesti, hittumst við búðina og leikum okkur í fjörunni.

  • Sunnudagur 5.sept. kl:16 Lautarferð. Hittumst hjá Túngötu 39. Göngum saman að rjóðri í skógræktinni, fáum okkur nesti og njótum þess að vera úti í náttúrunni.

Tökum þátt og höfum gaman saman.

Grænfánanefnd Tálknafjarðarskóla

Tækjasalurinn opnar aftur

Tækjasalurinn í Íþróttamiðstöðinni opnar aftur laugardaginn 28. ágúst 2021 kl. 11:00. Salurinn er opinn á opnunartíma hússins sem er frá kl. 11:00 til 14:00 um helgar og kl. 08:00 til 20:00 virka daga.

 

Þann 28. ágúst taka nýjar sóttvarnareglur gildi og þá falla út allar takmarkanir sem hafa verið á starfsemi líkamsrætarstöðva. Gestir Íþróttamiðstöðvarinnar eru samt sem áður beðnir um að gæta vel að hreinlæti og umgengni.

 

Þjónusta á slökkvitækjum

Öryggismiðstöðin mun mæta með sérfræðinga í yfirferð slökkvitækja á Patreksfjörð og taka á móti slökkvitækjum í hleðslu og yfirferð. Fyrirtækið verður einnig með slökkvitæki og annan eldvarnarbúnað til sölu á Patreksfirði.

Tekið er á móti slökkvitækjum á þessum stöðum mánudag til fimmtudag 30.08.21 - 02.09.21.

Tekið verður á móti tækjunum og þeim síðan skilað eftir 1-2 daga.

Vinsamlegast merkja tækin með fullu nafni og kennitölu.

Tekið er á móti slökkvitækjum á eftirfarandi stöðum:

Patreksfjörður, Slökkvistöðin á Patreksfirði.

Tálknafjörður, Verslunin Hjá Jóhönnu ehf.

Bíldudalur, Íþróttamiðstöðin Bylta.

 

Nánari upplýsingar er hægt að nálgast í síma:

Þorgils Ólafur s: 820-2413

Jón Hjörtur s: 780-5840
 

Eldri færslur
« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    
Næstu atburðir
Vefumsjón