A A A

Gleðilega hátið

Tálknafjarðarhreppur óskar Tálknfirðingum sem og landsmönnum öllum gleðilegra jóla og farsældar á nýju ári.

Með kærri þökk fyrir samskiptin á árinu sem er að líða.

F.h. sveitastjórnar og starfsmanna Tálknafjarðarhrepps,

Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri

Gámavöllur næst opinn miðvikudaginn 30. desember

Því miður verður lokað á gámavöllum á Þorláksmessu, miðvikudaginn 23. desember. Næst verður opið á gámavöllum miðvikudaginn 30. desember á venjulegum tíma, milli kl. 15:00 og 17:00.

 

Fjárhagsáætlun samþykkt

Fjárhagsáætlun ársins 2021, ásamt gjaldskrám og fjárfestingaráætlun, var samþykkt við síðari umræðu sem fór fram á  567. fundi sveitarstjórnar sem var haldinn 21. desember 2020.

 

Fjárhagsáætlun Tálknafjarðarhrepps fyrir árið 2021 og þriggja ára áætlun áranna 2022-2024 markast af þeirri efnahagslegu óvissu sem nú er og mótar mjög rekstrarumhverfi íslenskra sveitarfélaga. Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árin 2021-2024 var unnið út frá ýmsum forsendum, svo sem hagspám, áætlun Sambands íslenskra sveitarfélaga um útsvarstekjur, fasteignamati og áætlun Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Það ljóst að margir áhrifaþættir eru markaðir mikilli óvissu og þar skiptir mestu hver þróun heimsfaraldurs vegna covid-19 verður næstu ár og misseri. Í forsendum fjárhagsáætlunar er álagningarhlutfall útsvars óbreytt frá fyrri árum, eða 14,52% og álagningahlutfall fasteignagjalda er óbreytt frá fyrra ári. Ýmsir rekstrarliðir eru hækkaðir til samræmis við spár um verðlagsbreytingar. Þjónustugjaldskrár eru flestar hækkaðar til samræmis við það 2,5% mark sem er skilgreint í lífskjarasamningunum.

 

Í rekstraráætlun A og B hluta eru heildartekjur áætlaðar 390,9 mkr. og framlegð rekstrar fyrir afskriftir og fjármagnsliði 9,2 mkr. Að teknu tilliti til afskrifta og fjármagnsliða er rekstrarniðurstaða neikvæð, þannig að rekstrarhalli samstæðu A og B hluta er áætlaður 34,5 mkr. Sveitarstjórn hefur ekki ráðist í hagræðingu í rekstri í áætlun ársins 2021 og svarar þar með því kalli að ríki og sveitarfélög dragi ekki saman seglin á erfiðum tímum. Þetta felur í sér að þjónustustig sveitarfélagsins verður ekki skert og áhersla er lögð á að viðhalda þjónustu og ráðist í nauðsynlegar fjárfestingar á vegum sveitarfélagsins. Gengið er út frá því að það ástand sem uppi er í samfélaginu sé tímabundið og því gert ráð fyrir því að allir þættir í rekstri sveitarfélagsins verði teknir til endurskoðunar til að tryggja að hann verði sjálfbær til framtíðar líkt og gert er ráð fyrir í þriggja ára áætlun.

 

Gert er ráð fyrir töluverðum fjárfestingum á vegum Tálknafjarðarhrepps þrátt fyrir þrönga stöðu og þá óvissu sem er í kortunum. Unnið verður að endurnýjun vatnslagna og gólfefna í íþróttamiðstöðinni, ráðist í nauðsynlegar framkvæmdir við Strandgötuna samhliða framkvæmdum Vegagerðarinnar. Gert er ráð fyrir fjárframlagi til byggingar þjónustuíbúða og þar með komið til móts við þá eftirspurn sem er eftir íbúðahúsnæði í sveitarfélaginu. Þá er gert ráð fyrir fjármagni til framkvæmda við Tálknafjarðarhöfn sem verða nánar skilgreindar með hafnasviði Vegagerðarinnar á fyrri hluta árs 2021 og þar með tryggt að fjármagn á samgönguáætlun nýtist. Samtals er áætlað fjárfesting sveitarfélagsins í ofangreindum verkefnum nemi 80 mkr. og er gert ráð fyrir lántöku upp á kr. 77 mkr. til að mæta fjárþörfinni. Gert er ráð fyrir að skuldaviðmiðið 2021 samkvæmt reglugerð 502/2012 verði í árslok 96,3% sem er vel undir því 150% hámarki sem er skilgreint í sveitarstjórnarlögum. Áætlað er að handbært fé í árslok 2021 verði neikvætt um 1,7 mkr. en því verði svo snúið við á árinu 2022.
 

Sveitarstjórnarfundur

Boðað er til 567. fundar sveitarstjórnar Tálknafjarðarhrepps sem fer fram á skrifstofu sveitarfélagsins að Strandgötu 38 mánudaginn 21. desember 2020 og hefst kl. 17:00.

Um er að ræða aukafund sem er boðaður í samræmi við 2.mgr. 8.gr. og 2.mgr. 9. gr. Samþykkta um stjórn Tálknafjarðarhrepps nr. 1280/2013.

Sjá fundarboð hér (.pdf)

Ólafur Þór Ólafsson, sveitarstjóri

Sjótækni festir kaup á vinnubát

Nýjum samningum fagnað við undirskrift, frá vinstri Egill Ólafsson, Arctic fish, Sten Ove Tveiten, Arctic fish, Rolf Ørjan Nordli, Arnarlax, Kjartan Jakob Hauksson, Sjótækni, Björgvin Gestsson, Sjótækni og Gunnar Skúlason Sjótækni. Ljósmynd Neil Shiran Þórisson, Arctic fish.
Nýjum samningum fagnað við undirskrift, frá vinstri Egill Ólafsson, Arctic fish, Sten Ove Tveiten, Arctic fish, Rolf Ørjan Nordli, Arnarlax, Kjartan Jakob Hauksson, Sjótækni, Björgvin Gestsson, Sjótækni og Gunnar Skúlason Sjótækni. Ljósmynd Neil Shiran Þórisson, Arctic fish.
1 af 3

Ánægjulegur áfangi náðist í samstarfi Sjótækni á Tálknafirði og fiskeldisfyrirtækjanna Arnarlax og Arctic fish þegar fulltrúar fyrirtækjanna undirrituðu þjónustusamninga á dögunum á Ísafirði. Sjótækni hefur annast ýmsa þjónustu fyrir fiskeldisfyrirtækin á Vestfjörðum á undanförnum árum og ná þessir samningar yfir þau verkefni sem sinna þarf. Samningarnir eru í gildi til fjögurra ára og fela í sér aukin tækifæri til uppbyggingar í þjónustu og búnaði Sjótækni.
 

Sjótækni er hafsækinn verktaki sem sinnir uppsetningu, eftirliti, viðhaldi og þjónustu við ýmiskonar mannvirki í sjó og vatni fyrir fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög ásamt því að reka öfluga köfunarþjónustu. Fyrirtækið þjónustar bæði stóra og litla verkkaupa við fjölbreytt verkefni um allt land og erlendis eftir því sem verkkaupum hentar. Framkvæmdir tengjast meðal annars fiskeldi, neðansjávarlögnum, mannvirkjum í sjó og vatni, skipaþjónustu, virkjunum og stóriðju. Fyrirtækið gerir út báta, vinnuskip, pramma, þjónustubíla og mikið af sérhæfðum tækjum og búnaði svo sem sjó- og vatnamælingatæki af fullkomnustu gerð. Sjótækni ehf er með höfuðstöðvar á Tálknafirði.
 

Sjótækni er staðsett í Hafnarhúsinu á Tálknafirði og unnið hefur verið að endurbótum á því svo húsið rúmi betur starfsemi og búnað félagsins. Framundan er mikilvæg fjárfesting hjá Sjótækni þar sem gengið hefur verið frá samningum um smíði á nýjum vinnubát fyrirtækisins í Noregi. Um er að ræða öflugan vinnubát sem sinnt getur þjónustu við fiskeldismannvirkin og unnið við uppsetningu nýrra kvía og festinga þeirra ásamt margskonar öðrum verkefnum sem Sjótækni fæst við. Vinnubáturinn er af gerðinni Catamaran NABCAT 1510 DD frá Moen Marin í Noregi og er 15 m langur og 10 m breiður. Vinnubáturinn er tvíbytna og búinn öflugum vélum ásamt krönum og búnaði til að setja út og strekkja kerfisfestingar fyrir kvíar. Góð aðstaða verður fyrir áhöfnina um borð og mun báturinn auðvelda alla vinnu hjá Sjótækni við fiskeldið. Von er á bátnum til Íslands í mars og beðið er með eftirvæntingu og tilhlökkun að takast á við framtíðar verkefni.
 

Með þessum samningum Sjótækni við fiskeldisfyrirtækin Arnarlax og Arctic fish heldur áfram hið góða samstarf sem fyrirtækin hafa átt um árabil.
 

Breytingar á sóttvarnarreglum, sundlaugin opnar

Tilkynnt hefur verið um breytingar á sóttvarnarreglum vegna Covid-19 sem taka gildi fimmtudaginn 10. desember 2020 og gilda til og með 12. janúar 2021. Hvað varðar starfsemi á vegum Tálknafjarðarhrepps þá er einkum tvennt sem breytist.

 

Sundlaugin mun opna að nýju fyrir almenning á auglýstum opnunartíma. Þar munu eftirfarandi reglur gilda:

  • Heimilt verður að hafa opið fyrir 50% af hámarksfjölda.
  • 2 metra reglan gildir í klefum og á sundlaugarsvæði.
  • Aðeins 4 fullorðnir í hvern pott.
  • Börn fædd 2005 og siðar eru ekki talin með í hámarksfjölda gesta.
  • Gestir þurfa að einnig að taka tillit til skólasunds á virkum dögum.
  • Tækjasalur og íþróttasalur verða áfram lokaðir fyrir almenning.

 

Í starfi Tálknafjarðarskóla verður sú breyting að ekki verður lengur grímuskylda fyrir nemendur í elstu bekkjum og þeir þurfa ekki að fara eftir 2 metra reglunni. Aðrar breytingar verða ekki á fyrirkomulagi skólastarfs að sinni.

 

Vonandi erum við nú að sigla í gegnum síðasta hlutann af þeim takmörkunum sem baráttan við farsóttina hefur sett á daglegt líf og samskipti hjá öllum. Það er væntanlega stutt í að bólusetningar vegna farsóttarinnar hefjist og þar með að hlutir færist smám saman í eðlilegt horf. Það er hins vegar mjög mikilvægt að missa ekki móðinn á lokasprettinum og fara eftir þeim sóttvarnareglum sem eru í gildi. Við verðum að halda áfram að fara eftir 2 metra reglunni, virða fjöldatakmarkanir, nota grímur þar sem það er skylda og gæta vel að handþvotti og hreinlæti. Við erum öll í þessu saman.

 

Ólafur Þór Ólafsson

sveitarstjóri

Eldri færslur
« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    
Næstu atburðir
Vefumsjón